154. löggjafarþing — 16. fundur,  17. okt. 2023.

föst starfsstöð þyrlu Landhelgisgæslunnar á Akureyri.

327. mál
[17:33]
Horfa

Flm. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þeim sem hér stendur er mjög annt um rekstur Landhelgisgæslunnar. Gegnum mitt starf til 30 ára hef ég séð mörg góð verk vera unnin af hálfu þeirrar stofnunar og hef tekið þátt í ýmsu sem hefur komið upp þar. Ég sagði líka áðan að það er mikilvægt að fá það fram í 2. umræðu eftir á að giska fimm vikur, þá kemur í ljós svona stóra myndin að mestu, hvernig verður farið með fjárlögin fyrir næsta ár. Þess vegna vil ég bara bíða með að svara nákvæmlega og svara frekar þá, þegar við erum að fást við fjárlögin hér í þessum sal, hvernig verður farið með þetta mál. En eins og ég kom inn á þá er mér annt um þennan rekstur, tel hann gríðarlega mikilvægan og hann þarf að styrkja. Það þarf að horfa til lengri framtíðar. Í greinargerð málsins kemur fram að heimurinn er að breytast og við þurfum að taka þátt í ákveðnum hlutum og í gegnum borgaralega þjónustu getum við helst komið að öryggis- og varnarmálum á okkar svæði. Þetta er gríðarlegt verkefni í Norður-Atlantshafi að halda uppi leit og björgun á hafsvæði sem er næstum 20 sinnum stærra en Ísland og við erum að stýra því héðan. Mér finnst að við eigum að vinna með nágrannaþjóðum okkar, Dönum, Norðmönnum, og öðrum Norðurlöndum og vinaþjóðum innan Atlantshafsbandalagsins að því að styrkja þetta viðbragð. Þannig að mín skoðun er alveg ljós á því hvert ég vil fara með þetta en ég ætla ekki að fara að ræða einstakar krónur eða milljónir hér fyrr en maður sér að þessu unnið í gegnum fjárlög og fjárlagaumræðuna.