154. löggjafarþing — 16. fundur,  17. okt. 2023.

endurskoðun á lagaumhverfi fyrir smávirkjanir.

51. mál
[18:20]
Horfa

Flm. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir andsvarið. Í tillögunni erum við að leggja til að við horfum svolítið til Noregs og ég veit að Norðmenn eru ekkert að slá af umhverfiskröfum hvað þetta varðar en geta þó stytt þetta ferli. Já, vissulega er það eins og í öllu að það er alltaf verið að sleikja eitthvert viðmið til þess að ná sem mestu út úr því. Ég þekki reyndar ekki tölfræðina en ég veit að flestar smávirkjanir eru í minni kantinum. Það er þó til náttúrlega að þær séu komnar upp í 9,9 MW og auðvitað þurfum við að skoða það sérstaklega. Það er þó í núverandi reglum að virkjanir með uppsett rafafl 200 kW eru náttúrlega bara tilkynningarskyldar, þessar litlu bændavirkjanir, þannig að það eru einhver skil þarna á milli. En vissulega þurfum við að skoða þetta með tilliti til þess og kannski, ef það verður farið út í það að skilgreina stærðarhlutföllin í þessu formi, smávirkjana, þá verður litið til þess að virkjanir sem eru kannski 400 kW eða undir 1 MW eru náttúrlega ekki til þess fallnar að valda mikilli umhverfismengun. Ég held að það sé öllu til bóta að skoða þetta með þessum gleraugum, án þess að sleppa einhverjum kröfum um að við viljum ekki valda skaða heldur nýta þetta á sem umhverfisvænastan hátt.