154. löggjafarþing — 16. fundur,  17. okt. 2023.

merkingar á vörum frá hernumdum svæðum Palestínu.

107. mál
[19:02]
Horfa

Flm. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég og hv. þingmaður séum sammála um að það verður að komast á vopnahlé. Það er ekki einu sinni hægt að tala um vopnahlé. Árásunum verður að linna. Það er auðvitað verk dagsins og næstu daga. Það held ég að ég og hv. þingmaður séum sammála um og auðvitað væri það gríðarlega alvarlegt, ekki bara fyrir íbúa á nærliggjandi svæðum og fyrir botni Miðjarðarhafs, ef til stríðs kæmi á stærra svæði. Það hefði auðvitað hræðilegar afleiðingar fyrir heiminn allan og ég ætla að vona það að alþjóðasamfélagið beiti sér virkilega til að svo gerist ekki. Þrátt fyrir að margt bendi til þess að hér gæti orðið um langvinnt ástand að ræða og ýmsir fréttaskýrendur hafi talað um að það gæti orðið lengra en við höfum séð fyrir þó nokkrum árum þegar Ísraelsmenn hafa gert árásir á Gaza þá ætla ég að leyfa mér að trúa því að árásunum linni og þá þarf að hugsa til næsta leiks. Ég og hv. þingmaður erum greinilega sammála um það að landnemabyggðirnar brjóti í bága við alþjóðalög, landnemabyggðirnar séu, ég vil bara segja vandamálið, alla vega stór hluti af því. (Forseti hringir.) En ef ekki með einhvers konar efnahagslegum aðgerðum varðandi Ísrael og landnemabyggðirnar, hvað þá? Það er aðeins minna vandamál að leysa en að koma á friði en það er samt gríðarstórt framtíðarmál að hugsa um.