154. löggjafarþing — 17. fundur,  18. okt. 2023.

Störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Hvað ætlar þú að verða þegar þú verður stór? Þetta er spurning sem okkur þykir eðlilegt að spyrja lítil börn, enda sýn þeirra oft bæði skemmtileg og skýr, og það er líka mikilvægt að koma því inn hjá þeim yngstu að það skiptir máli að velta framtíðinni fyrir sér. Unglingar fá þessa spurningu líka. Svarið er eðlilega öllu ígrundaðra, enda þau í alvöru farin að undirbúa framtíðina. Á ferðum Viðreisnar um landið undanfarið hefur rauði þráðurinn í samtölum verið skorturinn á skýrri framtíðarsýn hjá stjórnvöldum. Það skiptir litlu hvort rætt er um heilbrigðismál, samgöngumál, verðbólgu, sturlaða vexti eða orkumál, svo dæmi sé tekið, og þetta er alvarlegt.

Stjórnmálaflokkar eða -menn sem hugsa til lengri tíma fá jafnvel á sig gagnrýni kollega fyrir, eins og einu tæki stjórnmálanna til að mæta helstu áskorunum séu tímabundnir plástrar sem helst á að fjármagna með skattahækkunum. Ég geri ekki lítið úr því að stundum þarf að plástra og það á sannarlega við vegna þess bráðavanda sem fjöldi heimila stendur frammi fyrir núna. En það er hins vegar fráleitt að hunsa það að þessi bráðavandi er síendurtekin afleiðing þess að hér hefur ekki verið brugðist við með skýrri sýn á það hvernig við tryggjum mikilvægan stöðugleika í efnahagslífinu til lengri tíma. Risasveiflurnar sem íslenskum heimilum er boðið upp á aftur og aftur eru ekki náttúrulögmál. Það eru plástrarnir sannarlega ekki heldur. Það hlýtur að vera eitt helsta hlutverk stjórnvalda að breyta þessu þó að það kosti átak og við þurfum síst af öllu á að halda ríkisstjórn sem á bara eitt svar þegar hún er spurð hvað hún ætli að gera þegar hún verður stór: Bara „chilla“ í þægilegum stólum.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir hv. þingmenn á að nota íslensku þegar þeir vilja tjá hugsanir sínar og finna þá íslensk orð fyrir erlend sem notuð eru.)(Gripið fram í.)