154. löggjafarþing — 17. fundur,  18. okt. 2023.

Störf þingsins.

[15:25]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf):

Virðulegi forseti, hv. þingheimur og kæra þjóð. Aldrei er góð vísa of oft kveðin. Þegar ég kom hérna í ræðustól um daginn þá sagði ég söguna af því þegar leikarinn sem lék Superman á sínum tíma lamaðist fyrir neðan háls. Robin Williams fór á spítalann, setti ávísun á borðið fyrir skrifstofustjórann og sagði: Ég borga brúsann. Ávísunin var óútfyllt.

SÁÁ segja í umsögn sinni við fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar að frumvarpið feli í sér niðurskurð sem nemi 126 milljónum í meðferðum gegn áfengis- og vímuefnavanda. Hallinn á rekstri heilbrigðisþjónustu SÁÁ verður á þessu ári 520 og eitthvað milljónir. Ég spyr: Hvernig stendur á því, þar sem Vogur er sjúkrahús, að það þurfi að reka það með sjálfsaflafé? Það er ekki verið að reka Landspítalann með sjálfsaflafé eða aðra spítala. Þetta er ósanngjarnt.

Slíkur halli getur ekki annað en leitt til umfangsmikillar skerðingar á þjónustu, svo mikilli að SÁÁ munu ekki geta staðið undir gildandi þjónustusamningum við Sjúkratryggingar Íslands. Sem dæmi er núgildandi samningur um lyfjameðferð við ópíóíðafíkn takmarkaður við 90 einstaklinga en á sama tíma eru 300 einstaklingar í meðferð. Þetta er mjög ósanngjarnt. SÁÁ eru komin að þolmörkum og geta ekki staðið undir þessum kostnaði. Heilbrigðiskerfið á Íslandi fær 353 milljarða á ári og þar af fara innan við 2 milljarðar í baráttuna gegn fíknisjúkdómum. Það er mjög ósanngjörn skipting vegna þess að fíknisjúkdómar eru þriðji stærsti dauðsvaldurinn á eftir krabbameini og hjartasjúkdómum og við segjum í Flokki fólksins: (Forseti hringir.) Ekki skattleggja fátækt, og fæði, klæði og húsnæði fyrir alla.