154. löggjafarþing — 17. fundur,  18. okt. 2023.

hlutur fyrirtækja í hagnaðardrifinni verðbólgu.

347. mál
[15:49]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Mér þykja þetta nú bara áhugaverðar umræður hérna og mig langar að vísa í það að fyrir einhverjum örfáum árum síðan tókum við, nokkrir þingmenn, einmitt upp á því að ræða hvort ekki væri ástæða til að breyta verklagi okkar hér á þinginu. Það er sem sagt hefð fyrir því að hér er lögð fram skýrslubeiðni. Það þarf bara nægilegan fjölda þingmanna og almennt samþykkir þingheimur skýrslubeiðni og þá er þessi vinna farin í viðkomandi ráðuneyti. Það er rosalega mikilvægur hluti af eftirlitshlutverki þingsins að geta látið slíka vinnu fara fram. Að sama skapi finnst mér bara eðlilegt áður en við greiðum atkvæði um slíkt að skýrslubeiðandi færi rök fyrir beiðni sinni og það sé allt í lagi að hér eigi sér stað smá umræða áður en farið er í atkvæðagreiðslu.