154. löggjafarþing — 17. fundur,  18. okt. 2023.

ávana- og fíkniefni.

102. mál
[17:02]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Það sem mig langar að spyrja út í er atriði sem kemur fram í greinargerðinni þar sem er vísað til reynslu í Tékklandi. Ég spyr af því að í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að ráðherra verði veitt heimild í reglugerð til að ákveða í rauninni hvað er neysluskammtur. Í greinargerðinni kemur fram hver reynsla í Tékklandi hafi verið. Það hafi fyrst verið sett fram skilgreining í reglugerð en svo hafi stjórnlagadómstóll í Tékklandi komist að þeirri niðurstöðu að það væri ekki hægt að, eins og þar er sagt, skilgreina refsinæmi verknaðar í reglugerð.

Þá er það spurning mín til hv. þingmanns, hver staðan kunni að vera uppi í þessum efnum í íslenskri löggjöf; hvort reglugerð framselji með þessum hætti of mikið vald til ráðherra. Það væri fróðlegt að eiga orðastað við hv. þingmann um þessi atriði. Þetta eru atriði sem ættu að koma líka til frekari skoðunar í meðförum þingsins en ég vildi vekja athygli á þessu.