154. löggjafarþing — 17. fundur,  18. okt. 2023.

ávana- og fíkniefni.

102. mál
[17:07]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Frú forseti. Þetta frumvarp sem hér er til umræðu er góðra gjalda vert. Ég kem hér upp til að fara stuttlega yfir það. Ég er sammála sjónarmiðum sem fram koma í þessu frumvarpi. Ég held að það sé öllum ljóst að núverandi refsistefna gagnvart þeim sjúkdómi sem við er að glíma, fíknisjúkdómnum, er algerlega gengin sér til húðar. Ég er fylgjandi því að við leitum allra leiða til að komast úr þeim hjólförum sem við erum í og höfum verið í í allt of mörg ár. Ef eitthvað er, frú forseti, þá er ég þeirrar skoðunar að það væri hægt að ganga miklu lengra. Ef þetta væri rætt almennt á hugmyndafræðilegum nótum er ég þeirrar skoðunar að það orkar mjög tvímælis og er vandkvæðum bundið að setja lög eða leggja bann og refsingar við einhverju sem er löstur í fari fólks. Ef við göngum þá leið hefur verið sagt að ef við bönnum allt sem telst vera löstur yrði enginn eftir til að fangelsa.

Þetta snýr í grundvallaratriðum að því hvað frelsi er. Hvað er frelsi einstaklings? Ef gengið er út frá almennri skilgreiningu eða hugmynd um hvað frelsi er þá er það frelsi til að gera það sem þú vilt við líf þitt svo lengi sem þú skaðar ekki aðra. Það er grunninntakið og ég er að mörgu leyti fylgjandi þeirri hugmynd. Þegar kemur að fíkniefnum er ég þeirrar skoðunar að við séum að fást við sjúkdóm og meðhöndlun sjúkdómsins samkvæmt núverandi refsistefnu gengur ekki upp. Við þurfum að fást við þetta vandamál með réttum hætti, þ.e. í gegnum geðheilbrigðiskerfið til að lágmarka skaðann.

Hvaða skaða erum við að tala um? Af hverju er þessi löggjöf í dag eins og hún er? Hún er eflaust sett af góðum hug, frú forseti. Hún er sett til þess að lágmarka tjón, minnka skaða og forða fólki frá því að valda sjálfu sér skaða og jafnvel öðrum í kringum sig. Þetta hefur auðvitað beina skírskotun til þeirrar áfengislöggjafar sem við höfum. Það er gjarnan rætt að áfengisfíkn sé sjúkdómur og valdi öðrum skaða, fólki í kringum þann sem er að fást við áfengis- eða fíknisjúkdóminn. Það geta verið nákomnir, börn á heimili o.s.frv. Almennt held ég að það sé samstaða um það og hið almenna viðhorf í okkar þjóðfélagi er nokkuð ríkt um að koma þeim sem höllum fæti standa til aðstoðar og hjálpar. Þegar við erum að fást við sjúkdóma og alvarlegar afleiðingar af ofneyslu áfengis er reynt að koma þeim einstaklingum til hjálpar. Ég tel einfaldlega að þegar um er að ræða fíkniefni sé enginn eðlismunur á því sem við er að eiga, það sé einfaldlega rétt að reyna að koma fólki til hjálpar en ekki læsa það á bak við lás og slá í fangelsum. Það dreg ég stórlega í efa að komi fólki til hjálpar.

Frumvarpið miðar að því að skilgreina ákveðna stærð neysluskammta og þeir verða refsilausir. Eins og ég sagði í upphafi tel ég að þau sjónarmið sem frumvarpið byggir á, samanburður við önnur lönd sem hafa farið þessa leið, séu rétt nálgun á þeim vanda sem við er að eiga og ég get tekið fyllilega undir það að með þessu skrefi værum við ekki bara að fást við töluvert veigamikla lagabreytingu, framkvæmd og eftirfylgni þeirrar refsistefnu sem við er að glíma, heldur sjáum við á umræðu undanfarinna ára hvernig viðhorfið í samfélaginu er að breytast. Sama hvaða orð við notum um þetta, afglæpavæðingu eða skaðaminnkun, þá tel ég rétt út frá þeirri forsendu sem ég lagði til grundvallar í upphafi máls míns að núverandi refsistefna gengur ekki upp.

Þetta er það sem ég vildi helst segja um frumvarpið og það verður spennandi að sjá þá meðferð sem það fær í meðförum þingsins og þá umræðu sem skapast um ýmis lagaleg atriði í málinu. Ég hef komið inn á það í andsvörum hér áður hvernig þetta er rétt stillt og annað slíkt. Það ætla ég svo sem ekki að gera að sérstöku umtalsefni en ætla að ljúka máli mínu á því að taka undir mat á ávinningi og því sem við er að eiga. Við værum með þessu að stíga skref þar sem við myndum hætta að refsa þeim sem eru haldnir ávana- og fíknisjúkdómi og koma þeim helst sem fyrst í viðeigandi úrræði og til aðstoðar. Ef það verður ofan á er alveg augljóst að þetta mun hafa margs konar áhrif í okkar réttarvörslukerfi, eiginlega í öllum þeim skrefum sem skipta máli. Þetta snýr að störfum lögreglu og að málum fyrir dómi og mun hafa afleiðingar á fangelsismál í landinu. En fyrst og síðast held ég að mesti ávinningurinn væri sá að við værum sannarlega sem þjóðfélag að koma þeim til aðstoðar sem aðstoðar eru þurfi.