154. löggjafarþing — 17. fundur,  18. okt. 2023.

ávana- og fíkniefni.

102. mál
[17:22]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir sitt seinna andsvar. Ég get tekið undir áhyggjur hv. þingmanns af því sem hún rekur hér um afleiðingar af núverandi refsistefnu, hvernig hún stuðlar að því að við náum ekki, með þeim úrræðum sem ríkið hefur í gegnum heilbrigðiskerfið og félagskerfið, til þess fólks sem er í vanda, eins og hv. þingmaður var að lýsa hér. Ég get tekið undir þetta. Ég get líka tekið undir það að afleiðingarnar af núverandi ástandi birtast okkur auðvitað með ýmsum hætti, hvernig við náum ekki til fólks. Með því að stíga þetta skref — ég hef lýst því yfir að ég er sammála upplegginu sem kemur fram í þessu frumvarpi — er ég sannfærður um að við værum örugglega í betri stöðu til að ná til fólks, sérstaklega ungmenna í viðkvæmri stöðu, með fræðslu, forvörnum og aðstoð. Það er það sem skiptir öllu máli hér, frú forseti, að geta komið í veg fyrir að við séum að ýta fólki í undirheimana, sem ýta því frá samfélaginu og fólkinu sínu og í veröld sem er frekar ógeðfelld. Ég held að þetta sé lykilatriði í þessu máli og ég get alveg tekið undir það að vinnan sem hefur verið að eiga sér stað í heilbrigðisráðuneytinu og hjá hæstv. heilbrigðisráðherra — ég er alveg fylgjandi henni og það væri fróðlegt að sjá hvernig henni miðar því að hún hefur tekið langan tíma.