154. löggjafarþing — 17. fundur,  18. okt. 2023.

félagafrelsi á vinnumarkaði.

313. mál
[18:13]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég skildi hann þannig að Samfylkingin kjósi að berjast ekki fyrir því að skylduaðild verði tekin upp að nýju. En þá hlýt ég að spyrja: Fyrst Mannréttindadómstóll Evrópu leggur að jöfnu skylduaðild og forgangsréttarákvæði og nefnir sérstaklega Danmörku og Ísland í því samhengi, og er þá augljóslega að vísa til forgangsréttarákvæðis á íslenskum vinnumarkaði, hvernig stendur á því að Samfylkingin er á móti þeirri breytingu sem hér er verið að leggja til? Hvernig getur Samfylkingin og hv. þingmaður annars vegar verið á móti því að taka aftur upp skylduaðild — það má í rauninni vera skiljanlegt að Samfylkingin vilji það í ljósi þess sem þau hafa fram að færa hvað varðar stéttarfélög — en lagst svo gegn því að greiða úr því óréttlæti sem launafólk sem kýs að standa utan stéttarfélaga býr við þegar forgangsréttarákvæðum er beitt? Ég fæ þetta ekki til að koma heim og saman, frú forseti.