154. löggjafarþing — 18. fundur,  19. okt. 2023.

efnahagsástand og áherslur fjármála- og efnahagsráðherra.

[10:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég fagna mjög þeim röddum hér inni á þingi sem tala fyrir einföldun regluverks og stuðning í því þegar slíkar tillögur koma fram. Þar er sannarlega verk að vinna inni í öllum ráðuneytum Stjórnarráðsins og það kallar líka á ákveðna hugarfarsbreytingu. Það þarf að vinda ofan af því sem þegar hefur verið gert en við þurfum hið minnsta að sammælast um að draga hér línu í sandinn og vera með þau gleraugu á þegar við erum að smíða regluverk.

Sömuleiðis með útgjöld, þá aftur er ekki tekjuvandi hjá ríkissjóði heldur eru það frekar útgjöldin. Við vitum að við munum þurfa að fara í kerfisbreytingar í heilbrigðisþjónustunni, velferðarþjónustu, menntakerfinu og við munum ekki leysa þann vanda með því að vera með grunninn óbreyttan og hlaða síðan nýjum verkefnum á sem kalla á frekari fjármuni. Við ákveðnum grunni má ekki hreyfa eins og þeim sem ég hef talað fyrir í mínu fyrra starfi. Þennan grunn má höggva í og brjóta upp úr til þess að við getum nálgast verkefnið með öðrum hætti og þá þarf líka alla til, líka forstöðumenn stofnana og aðra, að sjá hvata og metnað í því að geta gert hlutina öðruvísi og það kallar á hugarfarsbreytingu alls samfélagsins.