154. löggjafarþing — 18. fundur,  19. okt. 2023.

utanríkis- og alþjóðamál.

[10:49]
Horfa

utanríkisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir góðar kveðju til mín í nýju embætti og ég tek undir með hv. þingmanni hvað það varðar að það eru viðsjár víða og ófriðartímar í okkar heimshluta, við höfum rætt það mikið hér á undanförnum mánuðum, síðastliðið ár og rúmlega það. Hér er spurt sérstaklega að því þegar horft er til átakanna í Úkraínu, hvort það hafi að mínu mati komið að gagni að loka sendiráðinu. Ég get ekki sagt að það hafi eitthvað sérstaklega komið að gagni. Það var hins vegar ákvörðun sem átti sér skýrar forsendur, m.a. þær að starfsemin var í algeru lágmarki og samskiptin nær engin á þeim tíma og það var komið að sendiherraskiptum. Á þessum tímapunkti er ekki til skoðunar að opna aftur en það fylgdi yfirlýsingunni á sínum tíma að það kæmi vel til greina þegar ástandið hefði breyst að nýju. Við erum ekki að slíta stjórnmálasambandi við Rússland þó að við höfum ákveðið að leggja niður starfsemi sendiráðsins.

Varðandi þróunaraðstoð við Palestínu þá vil ég nota tækifærið hér og vekja athygli á því að ríkisstjórnin ákvað að stuðningur skyldi aukinn við Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna um 70 milljónir, sem kemur til viðbótar við fasta stuðninginn sem hefur verið til þeirrar stofnunar vegna mannúðarmála í Palestínu. Það er rétt hjá hv. þingmanni að það skiptir máli að slíkur stuðningur skili sér rétta leið og við leggjum áherslu á það í samstarfi við aðrar þjóðir. Maður tekur eftir því t.d. í gær þegar Bandaríkjamenn leggja fram stóraukinn stuðning til mannúðarmála á svæðinu að það er sérstaklega tekið fram að gengið hafi verið úr skugga um að fjárstuðningurinn rati rétta leið. Ég læt þetta duga í bili.