154. löggjafarþing — 18. fundur,  19. okt. 2023.

almannatryggingar.

108. mál
[12:17]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Eldri borgarar, ellilífeyrisþegar, þetta eru hugtök sem við hendum fram í umræðunni en þau eru ópersónuleg þannig að við gleymum oft að á bak við þau er fólk, feður og mæður sem væntanlega hafa lokið því hlutverki sínu og eru núna afar og ömmur. Þetta er fólkið sem byggði landið, fólkið sem við, a.m.k. á hátíðarstundum, teljum eiga allt gott skilið; meira en það, þau eiga allt það besta skilið. En nú er það svo í þessu sjötta ríkasta landi heims að um 11.000 eldri borgarar eru í neðstu þremur tekjutíundunum og um 6.000 þeirra búa við fátækt og sum þeirra hreinlega við hungurmörk. Fólk, sérstaklega þau sem höfðu kannski ekki úr miklu að moða í gegnum lífið, unnu láglaunastörf, voru jafnvel á örorku og áttu ekki eigið húsnæði heldur eru í rándýru leiguhúsnæði og gátu illa lagt fyrir, hvað þá safnað í digra sjóði, það fólk er sérstaklega illa statt.

Það sem verra er, þá virðist ríkið hreinlega gera sér far um að auka á erfiðleika þeirra með öllum þeim ráðum sem það hefur. Hvernig í ósköpunum stendur á því og hvenær var sú ákvörðun tekin að það ætti að taka allar bjargir af eldra fólki sem hefur mjög lítið og biður alls ekki um mikið? Það biður um að fá að njóta þess sem því hefur þó tekist að leggja fyrir í gegnum lífið með trúföstum greiðslum í lífeyrissjóð sem átti að vera til elliáranna. Í staðinn hefur ríkið ákveðið að skerða lögbundnar greiðslur til þeirra vegna þeirra réttinda sem þau hafa áunnið sér í lífeyrissjóði. Mér finnst ástæða til að spyrja af hverju ríkinu komi við hvað fólk fái greitt úr lífeyrissjóðum. Ekki eru þeir reknir af ríkinu og ekki þurfa greiðslurnar að vera háar til að ríkinu ofbjóði og byrji að skerða lögbundnar greiðslur þeirra frá Tryggingastofnun.

Greiðslurnar úr lífeyrissjóðunum mega ekki fara yfir 25.000 áður en skerðingar hefjast. Hvað fæst fyrir 25.000 kr. í dag? Allt hefur hækkað, ekki síst matvara. Einnig má nefna fatnað og lyf, sem eru umtalsverður útgjaldaliður hjá eldri borgurum, og alls ekki gleyma húsaleigu sem hefur margfaldast á undanförnum mánuðum. Þetta mál snýst í raun í grunninn um fæði, klæði og húsnæði og að allir geti lifað mannsæmandi lífi, sem eru grundvallarbaráttumál Flokks fólksins.

Í umsögn ASÍ um fjárlagafrumvarp ársins 2020 stendur, með leyfi forseta:

„Ekki er gert ráð fyrir að draga úr óhóflegum tekjutengingum milli lífeyris úr samtryggingarlífeyrissjóðum og almannatrygginga sem draga úr hvata til lífeyrissparnaðar og veikja tiltrú á lífeyrissjóðakerfið. Tekjuskerðingar almannatrygginga gera það að verkum, í samspili við tekjuskattskerfið, að áratuga söfnun lífeyrisréttinda í lífeyrissjóð skilar mörgum óverulegri viðbót í ráðstöfunartekjum. Þannig fær einstaklingur sem býr einn og á 100.000 krónur í lífeyri úr samtryggingarlífeyrissjóði einungis um 36 þúsund krónur í auknar ráðstöfunartekjur umfram þann sem engin réttindi á þegar tekið hefur verið tillit til tekjuskerðinga almannatrygginga og staðgreiðslu skatta. Eigi viðkomandi 200.000 kr. í lífeyrisréttindi aukast ráðstöfunartekjurnar um 63 þúsund krónur. Þegar lífeyrir úr samtryggingarlífeyrissjóði nær ríflega 570.000 kr.“ — þannig að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af framkvæmdastjóranum sem býr í Garðabæ og er með tvær milljónir í laun á mánuði, eins og stundum hefur verið haldið fram — „hefur allur réttur til greiðslna úr almannatryggingum þurrkast út og ráðstöfunartekjur nema þá um 417 þúsund krónum á mánuði.“

Svo mörg voru þau orð en þau höfðu engin áhrif á hv. ríkisstjórn. Nei, aldraðir, foreldrar okkar, afar og ömmur, mega enn bíða eftir réttlæti og éta það sem úti frýs. En kannski það séu ekki foreldrar eða afar og ömmur þeirra sem öllu ráða, þau eru kannski ekki í þessum 11.000 manna hópi í lægstu tekjutíundunum.

Samkvæmt reiknivél TR og miðað við ellilífeyrisþega sem býr einn þá skilar það aðeins 20.000 kr. í auknar ráðstöfunartekjur þegar lífeyristekjur aukast úr 25.000 kr. á mánuði í 100.000 kr. á mánuði. Þetta er 74% samfelld skattlagning og skerðing. Hvernig er það ásættanlegt að eldri borgarar sem hafa lagt fyrir fyrir eigin lífeyrissparnaði í marga áratugi verði svo af nærri þremur fjórðu af útgreiðslu hans? Þetta hlýtur að flokkast undir eignaupptöku, a.m.k. jaðrar við hana. Grái herinn höfðaði mál gegn ríkinu árið 2021 vegna einmitt þeirrar eignaupptöku sem felst í þessum skerðingum. Því miður úrskurðaði dómarinn ekki ellilífeyrisþegum í vil. Það er því okkar verkefni hér í þessum sal að tryggja lífeyrisþegum örugga framfærslu og koma í veg fyrir þá eignaupptöku sem felst í rúmlega 70% samfelldri skattlagningu og skerðingu.

Ein afleiðingin af því að ríkið hefur beitt ofurskerðingum í almannatryggingakerfinu er m.a. sú að útgjöld hins opinbera til ellilífeyrisgreiðslna í almannatryggingakerfinu eru hin minnstu sem þekkjast meðal vestrænna þjóða. Þingheimur hlýtur að sammælast um að draga úr þessum skerðingum og koma á sérstöku 100.000 kr. frítekjumarki vegna lífeyristekna, sérstaklega í ljósi þess að meira en 11.000 eldri borgarar eru í lægstu þremur tekjutíundum samfélagsins og 6.000 þeirra í lægstu tveimur tekjutíundum samfélagsins. Minna má það ekki vera. 100.000 kr. eru ekki mikið og eldri borgarar þessa lands eiga rétt á að lifa með reisn og sóma lífið á enda.