154. löggjafarþing — 19. fundur,  24. okt. 2023.

stefna og aðgerðir í fíknimálum.

[14:05]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigmari Guðmundssyni fyrir að taka þetta mál hér á dagskrá, þetta mikilvæga mál, þessa mikilvægu heilbrigðisþjónustu sem við þurfum að standa miklu betur að, ég bara viðurkenni það hér og nú. Ég geri það af því að ég hef kannski ekki nægjanlega kynnt mér þetta þangað til ég stóð uppi með þá ábyrgð sem heilbrigðisráðherra og það hversu flóknar félagslegar forsendur eru á bak við þegar við erum að horfa á hópana sem við erum að sníða þjónustuna að og tek hjartanlega undir allt það sem hv. þingmaður kom inn á. Varðandi það líka þegar við erum með konur í þessari erfiðu stöðu, með erfiða fíkn og börn og fjölskyldu, þá þurfum við að horfa til þjónustunnar, hvernig við sníðum þjónustuna þannig að hún virki fyrir fólkið.

Það er rétt sem hv. þingmaður kom inn á að stefna í áfengis- og vímuvörnum rann raunverulega út 2020. Þá var sett í gang svokallað stöðumat sem er ekki lokið og ég hef verið að bíða eftir. En ég hef núna sett aukinn kraft í þetta stöðumat og þá vinnu samhliða að gera heildræna stefnu.

Á sama tíma höfum við sett af stað hóp sem tekur sérstaklega fyrir skaðaminnkun í þessu samhengi og þá voru það viðbrögð raunverulega við þessum ópíóíðafaraldri þar sem fór af stað mikil umræða og viðbrögð, sérstaklega í vor, og viðbrögð stjórnvalda. Þetta er komið í gang og ég hef átt samtöl við landlækni sem fer auðvitað með lýðheilsumál á Íslandi um þá hugmynd að hluti af stefnunni sé þessi fíknivakt, sem er góð hugmynd.