154. löggjafarþing — 20. fundur,  25. okt. 2023.

Störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Ég vil hér í störfum þingsins aðeins gera að umtalsefni orðaskipti sem ég átti í gær við hæstv. heilbrigðisráðherra um þá staðreynd, þá sorglegu staðreynd, þá mjög sorglegu staðreynd að hér er ekki nein stefna til í málaflokki sem stefnir í að innibera fólk sem deyr í tugavís á ári hverju. Við erum með tölur um það að úr alkóhólisma eða fíknisjúkdómi muni deyja 80–100 manns á þessu ári og þetta eru bara tölur frá SÁÁ. Allt annað er ekki greint með sama hætti hvað varðar þá sem hafa leitað annað. Það er engin formleg stefna búin að vera í þessum málaflokki frá árinu 2020. Þá rann hún út. Núna er í gangi vinna í heilbrigðisráðuneytinu við að móta einhverja stefnu en við höfum enga tryggingu fyrir því að Alþingi Íslendinga og stjórnvöldum lánist að móta þessa stefnu og fá hana samþykkta hér áður en þetta kjörtímabil er úti.

Ég vil nefna sérstaklega í þessu samhengi að í hvert einasta skipti sem maður viðrar þessi mál opinberlega, hvort sem það er í greinaskrifum eða í viðtölum eða hér í ræðustól Alþingis, þá fær maður neyðaróp frá fólki sem kemur annaðhvort ekki börnunum sínum eða kemst ekki sjálft í meðferð. Það þarf að bíða mánuðum saman. Þetta er málaflokkur þar sem tugir einstaklinga deyja á hverju einasta ári og við komum fólki ekki inn í aðstoð þegar það þarf raunverulega á því að halda.

Mig langar enn og aftur að ýta undir þá hugmynd sem Alma Möller landlæknir hefur komið með um að stofnuð verði sérstök fíknivakt þar sem undir verður sérstök rauntímavöktun á umfangi vandans og skörp viðbrögð til samræmis, eins og hún nefndi í blaðagrein á dögunum. Þetta gæti kallast fíknivaktin. Þar hefði þessi nefnd tæki til að greina, vakta og grípa inn í. Hún hefði nauðsynlegar heimildir til þess að virkja þær stofnanir sem undir eru til að bregðast við þeim bráða vanda sem upp kemur. Mér finnst full ástæða til þess að ýta við okkur öllum. Við getum ekki búið við það lengur að ekki sé til virk stefna í þessum málaflokki.