154. löggjafarþing — 20. fundur,  25. okt. 2023.

Störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Laun fyrir lífi — ungra bænda og íslenskra sveita er yfirskrift fundar sem ungir íslenskir bændur standa fyrir í Salnum í Kópavogi annað kvöld. Það er mikilvægt að við hlustum á þá rödd sem íslenskir bændur hafa og á það ákall sem þeir senda þjóðinni núna vegna afkomu sinnar og afkomubrests, sem er auðvitað ekki nýr en hefur með tilkomu Covid, stríðs í Úkraínu og hárra vaxta farið afar illa með mörg bú.

Engum dylst erfið staða bændanna. Án breytinga á umhverfi þeirra og landbúnaðarins verður ekki eðlileg endurnýjun í sveitum landsins. Tómlæti samkeppnisyfirvalda kostar bændur og neytendur milljarða á ári. Breytingar voru gerðar um samstarf afurðastöðva og sölukerfis kúabænda fyrir nokkrum árum með gríðarlega mikilli hagræðingu. Sauðfjárbændur þurfa að feta sömu leið. Það er líka ljóst að hér í þinginu erum við oft ekki að lyfta undir með stöðu bænda.

Í dag verður flutt frumvarp um að banna blóðmerahald í landinu. Það liggur fyrir að á annað hundrað býli í þessu landi byggja afkomu sína að verulegu leyti eða alfarið á blóðmerahaldi. Í landinu eru 70.000 hross, þar af eru 2.000 merar sem eru teknar í blóðmerahald. Samkvæmt upplýsingum sem fram komu í atvinnuveganefnd um daginn, þar sem yfirdýralæknir var fyrir svörum þegar ég óskaði eftir að hún yrði þar, hafa engin hross í landinu það betra en blóðmerar, engin hross. Minnsta álagið er á þeim. Það eru u.þ.b. 40 mínútur á ári sem þær eru undir álagi en annars eru þær úti á beit.

Hvers vegna erum við að þvælast fyrir bændum og koma í veg fyrir tekjur þeirra? Sendum bændum jákvæð skilaboð.