154. löggjafarþing — 20. fundur,  25. okt. 2023.

Störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Í gær flutti Urður Bartels ótrúlega öfluga ræðu á Arnarhól til að minna okkur öll á hinar alvarlegu hliðar kynferðislegs ofbeldis. 40% kvenna og kvára á Íslandi hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Þetta hlutfall er enn hærra hjá þeim sem eru af erlendum uppruna eða eru fötluð. Sjöttu hverri stelpu eða stálpi í 10. bekk hefur verið nauðgað. Er þetta jafnrétti? Er þetta réttlæti?

Ef tölur um kynferðisbrot sem tilkynnt eru til Stígamóta eru skoðaðar og þær bornar saman við fjölda atvika sem tilkynnt eru til lögreglu þá kemur í ljós að aðeins 10% ákveða að leggja fram kæru því að tiltrú þeirra á réttarkerfið er brotin. Það er kannski ekkert skrýtið að tiltrúin sé ekki til staðar því að einungis ein af hverjum fimm tilkynningum til lögreglu leiðir til þess að ákæra er gefin út, mjög oft einu til tveimur árum eftir að þolandi tilkynnti brotið. Kærur falla mjög oft niður vegna þess að rannsókn lögreglu tekur of langan tíma. Ef þolanda er byrlað og síðan brotið á viðkomandi þá dregur það úr líkum á að ákæra sé gefin út af því að þolandi man ekki eftir öllu. Er þetta jafnrétti? Er þetta réttlæti?

Ef þolandinn er svo heppinn að gerandi er dæmdur fyrir brotið þá hefur þeim gerendum sem hljóta skilorðsbundinn dóm að öllu eða stærstu leyti fjölgað til muna, sér í lagi vegna langs málsmeðferðartíma. Allt hefur þetta þau áhrif að konur og kvár hætta tilkynna kynferðisbrot svo að þau þurfi ekki að upplifa brotið aftur og aftur ár eftir ár, allt til einskis. Er það jafnrétti? Er það réttlæti? Nei.