154. löggjafarþing — 20. fundur,  25. okt. 2023.

velferð dýra.

12. mál
[17:45]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef áhyggjur af því að þessi breyting sem er fyrirhuguð á næstunni geti haft áhrif á greinina. Það er þó ekki víst. Mér finnst að það hafi aðeins verið dregið í land með að það sé verið að leggja búgreinina af. Ég heyri það á bændum og forystumönnum bænda að það sé afar einkennilegt að þessi grein sérstaklega sé gerð að einhverju vísinda- eða tilraunaverkefni núna þegar hún er búin að standa í 40 ár og það eru dýralæknar og lyfjafræðingar og alls konar menntað fólk sem starfar við þetta. Það er í rauninni ekki neitt nýtt sem þarf að leita að eða fræðast um, það þarf bara að halda áfram að gera það besta sem hægt er í þessu og gera það á vísindalegan og góðan hátt.