154. löggjafarþing — 21. fundur,  26. okt. 2023.

Málefni aldraðra.

[13:12]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegur forseti. Þegar starfstengdu lífeyrissjóðunum var komið á fót í kjölfar kjaraviðræðna 1969 var það ekki útgangspunkturinn að greiðslur úr lífeyrissjóðum yrðu dregnar svo rækilega frá greiðslum almannatrygginga að ríkið sjálft yrði í rauninni stóri lífeyrisþegi lífeyrissjóðanna. Ég ætla bara að leyfa mér að fullyrða þetta og ég held að allir sem komu að þessum kjaraviðræðum á sínum tíma geti staðfest það. Þetta voru svo sannarlega ekki væntingar þess fólks sem hefur greitt í lífeyrissjóði alla sína starfsævi. Það var ekki ætlunin að t.d. ábatinn af 150.000 kr. sjóðasöfnun yrði auknar ráðstöfunartekjur upp á 50.000 kr. og restin rynni til ríkisins í formi skatta og skerðinga. En þannig er fyrirkomulagið í dag. Þannig er jaðarskattbyrðin í þessu kerfi og það finnst varla það ríki í heiminum þar sem tekjutengdar skerðingar eru jafnmiklar og á Íslandi. Raunar hafa skerðingar í þessa veru fylgt kerfinu allt frá upphafi af því að það hefur ekki verið pólitískur vilji til þess hér á Alþingi að fjármagna þetta kerfi almennilega. Fyrir vikið ver líka íslenska ríkið miklu minna fé til almannatrygginga heldur en löndin í kringum okkur, norrænu velferðarríkin.

Hv. þm. Inga Sæland gerði áðan að umtalsefni 25.000 kr. frítekjumark lífeyrissjóðstekna, eða þetta er reyndar almennt frítekjumark sem tekur til lífeyrissjóðstekna, sem hefur ekki hreyfst um margra ára skeið. Ég vil bara benda á það hér að í þessu felst ekki einhvers konar óbreytt ástand þegar kemur að skerðingum. Nei, þegar skerðingarmörk, þegar svona frítekjumörk fylgja ekki verðlagi þá þýðir það beinlínis að skerðingin er að aukast á hverju einasta ári. Hún er að verða þyngri og þyngri á hverju einasta ári. Þetta er bara pólitísk ákvörðun, rétt eins og það hefur verið tekin pólitísk ákvörðun um það hérna á Alþingi ár eftir ár af stjórnarmeirihlutanum og af ríkisstjórn að láta greiðslur almannatrygginga ekki fylgja launavísitölu, (Forseti hringir.) ekki fylgja launaþróun raunverulega, (Forseti hringir.) ekki fylgja lægstu launum heldur þótt 62. gr. almannatryggingalaganna geri svo sannarlega kröfu um að tekið sé mið af launaþróun.