154. löggjafarþing — 22. fundur,  6. nóv. 2023.

afstaða stjórnvalda í utanríkismálum.

[15:17]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Forseti. Samfylkingin hefði viljað að Ísland samþykkti ályktun um tafarlaust vopnahlé á Gaza á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Það var hins vegar ekki gert en hæstv. utanríkisráðherra hefur þegar rakið ástæður þessa. Látum aðdraganda þeirrar ákvörðunar liggja á milli hluta núna. Ég vil spyrja um það sem gerðist í kjölfarið því að í humátt á eftir hæstv. utanríkisráðherra fylgdi höfuð ríkisstjórnarinnar, hæstv. forsætisráðherra, og opinberaði andstöðu sína við ákvörðun utanríkisráðherra og þar með utanríkisstefnu Íslands eins og hún birtist á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

Forystufólk ríkisstjórnarinnar hefur látið eins og þetta skipti engu máli, það sé aukaatriði að hæstv. forsætisráðherra grafi með þessum hætti undan stefnu hæstv. utanríkisráðherra, og fólkið í landinu er svo sem orðið vant því að ráðherrar tali þvers og kruss í mörgum málaflokkum. En þegar kemur að flestum öðrum málaflokkum en utanríkismálum þá höfum við a.m.k. fjárlögin sem gilda þegar upp er staðið og afhjúpa það hvaða stefna það er sem hefur verið rekin í raun og veru. Í utanríkismálum er það hvað við segjum og samþykkjum sem skiptir máli. Og tónn skiptir máli. Það skiptir máli að Ísland tali einni og skýrri röddu á alþjóðlegum vettvangi, ekki síst í ljósi þess að við erum smáríki sem leggur lítið til varnarmála.

Forseti. Ég hefði talið eðlilegast að beina þessari spurningu beint til hæstv. forsætisráðherra en hún er að sinna öðrum verkefnum. Því spyr ég hæstv. utanríkisráðherra: Ef utanríkisráðherra segir eitt en forsætisráðherra annað, hvort gildir? Hvort gildir utanríkisstefna utanríkisráðherrans eða það sem höfuð ríkisstjórnarinnar segir í kjölfarið þegar hún lýsir opinberri andstöðu við ákvörðun utanríkisráðherra?