154. löggjafarþing — 22. fundur,  6. nóv. 2023.

bótagreiðslur til bænda vegna niðurskurðar búfjár.

[15:46]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Herra forseti. Í síðustu viku undirritaði hæstv. matvælaráðherra breytingu á reglugerð um útrýmingu á riðuveiki í sauðfé. Það er afar ánægjulegt að sú breyting hafi gengið í gegn og ástæða til að hrósa ráðherranum fyrir það, enda tel ég að um umtalsverð tímamót sé að ræða í baráttunni gegn riðuveiki. Það er afar mikilvægt að vel takist til í framhaldinu.

Ég vil hins vegar nota þetta tækifæri til að beina spjótum að öðrum þætti þessa máls sem er útistandandi. Það snýr að bótagreiðslum til bænda sem þurfa að sæta niðurskurði. Það er til að mynda enn ósamið við bændur í Miðfirði um bótagreiðslur frá því í apríl síðastliðnum eða þegar sá niðurskurður átti sér stað. En í reglugerðinni sem hér um ræðir, 651/2001, er kveðið skýrt á um að greiðslur til bænda skuli berast eigi síðar en 45 dögum eftir að förgun lauk. Við þekkjum dæmi um það á undanförnum árum þegar þessi tilvik hafa komið að það eru erfiðleikar hjá bændum að ná samningum við ráðuneytið um fullar bætur. Þetta eru atriði sem snúa að vinnulaunaþætti eða kostnaði við förgun og fleiru. Ég vil því freista þess að spyrja ráðherrann þriggja lykilspurninga.

Í fyrsta lagi: Hvað veldur því að ekki hefur tekist að semja við bændur í Miðfirði?

Í öðru lagi: Hver er afstaða ráðherra til þarfar á því að fara að endurskoða ákvæði reglugerðarinnar, IV, kafla, sem snúa að bótagreiðslum?

Í þriðja lagi: Telur ráðherra að gildandi lög og reglur og sú framkvæmd sem er viðhöfð tryggi nægjanlega að komið sé að fullu til móts við þá bændur sem verða fyrir tjóni vegna niðurskurðar á fé?