154. löggjafarþing — 22. fundur,  6. nóv. 2023.

bótagreiðslur til bænda vegna niðurskurðar búfjár.

[15:51]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. matvælaráðherra fyrir svarið. Það er rétt að greiðslur hafa borist til bænda í Miðfirði en það er ósamið, enda standa veigamiklir þættir út af, eins og hæstv. ráðherra kemur inn á, atriði sem snúa að vinnulaunum og hefur verið ágreiningur um í töluverðan tíma. Hægt er að vísa til dóma frá því fyrir um tíu árum eða svo um vinnulaunaþáttinn. Það er eins ágreiningur um þætti sem snúa að því hvert sé hið rétta verð fyrir líflömb o.s.frv. En það eru akkúrat þessi atriði sem ég vil koma inn á. Telur ráðherrann, eins og ég spurði hér í minni fyrri spurningu, ekki þörf á að fara í endurskoðun á þessu regluverki þannig að réttarstaða þeirra sem lenda í þessu hræðilega tjóni verði skýrð, en það sé ekki dregið af hálfu stjórnvalda að fullar bætur komi fyrir?