154. löggjafarþing — 23. fundur,  6. nóv. 2023.

opinber störf á landsbyggðinni.

346. mál
[17:52]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Dómsmálaráðherra vill taka það fram að hún mun ekki mæla fyrir frumvarpi um sameiningu sýslumannsembættanna á yfirstandandi löggjafarþingi. Þess í stað hef ég hug á að fylgja eftir þeirri stefnumótunarvinnu sem hefur átt sér stað undanfarin ár og birtist í skýrslunni sem dómsmálaráðuneytið gaf út í mars 2021 og ber heitið Sýslumenn: Framtíðarsýn; umbætur á þjónustu og rekstri. Ég hef einnig sett af stað vinnu við mótun nánari framtíðarsýnar ráðuneytisins í málefnum sýslumanna. Í þeirri vinnu mun ég leggja ríka áherslu á náið samráð og samvinnu milli ráðuneytisins og sýslumanna auk þess að greina nánar þau tækifæri sem styðja við markmið um bætta þjónustu, auk þess sem sérstaklega yrði að huga að tækifærum til að styrkja landsbyggðarembættin.

Markmið vinnunnar er annars vegar að móta nánar framtíðarsýn sýslumannsembættanna sem miðar m.a. að því að styrkja starfsemi embættanna á landsbyggðinni og stuðla að hagkvæmari rekstri ásamt bættri þjónustu, og hins vegar að bera kennsl á tækifæri fyrir frekari umbætur til stuðnings markmiðum málaflokksins og þeirri stefnu sem ákveðin verður í þeirri vinnu sem verið er að setja af stað. Við vinnuna skal leitast við að fylgja eftir þeim markmiðum og áherslum sem fram koma í þingsályktun nr. 27/152, um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022–2036, og ríkisstjórnarsáttmálanum, þ.e. að standa vörð um grunnþjónustu hins opinbera.

Ráðherra vill að sýslumenn verði miðstöð ríkisins í héraði og ég sé fyrir mér að sýslumenn geti gegnt þar veigamiklu hlutverki við að aðstoða íbúa við að reka erindi sín hjá öðrum fjarlægum stjórnvöldum. Þetta getur bæði átt við aðstoð með rafræn erindi á Ísland.is og leiðbeiningar og aðstoð við útfyllingu eyðublaða eða leit að réttum opinberum aðila. Við viljum ekki að íbúar þurfi að flakka á milli margra opinberra aðila heldur að þeim dugi að koma við á næstu skrifstofu sýslumanns og fá þar nauðsynlega aðstoð.