154. löggjafarþing — 23. fundur,  6. nóv. 2023.

skipulögð brotastarfsemi.

323. mál
[17:55]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Diljá Mist Einarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Undanfarið hefur farið mikið fyrir frásögnum af alvarlegum ofbeldisglæpum og árásum í Svíþjóð. Ofbeldisaldan hefur verið rakin til átaka glæpagengja sem hafa hreiðrað um sig og sér ekki fyrir endann á ofbeldinu. Tugir einstaklinga hafa látið lífið í tengslum við ofbeldisfull átök, m.a. í skotbardögum. Morðtilraunir og sprengjuárásir eru daglegt brauð og yfirvöld virðast nánast ráðþrota gagnvart vandanum. Sífellt fleiri saklausir borgarar sem hafa engin tengsl við gengin verða fyrir barðinu á ofbeldinu. Lögreglan í Svíþjóð hefur þurft að auka viðbúnað sinn og jafnvel hefur verið rætt um aðstoð hersins vegna ástandsins.

Það er vel þekkt að við hér á Íslandi erum oft árum eða áratug á eftir þróuninni í ýmsum málum á Norðurlöndum. Ég vildi því spyrja hæstv. dómsmálaráðherra út í þróun skipulagðrar brotastarfsemi á Íslandi á undanförnum árum og sömuleiðis út í það hvort og þá hvaða aðgerða hún ætli að grípa til til að sporna við skipulagðri brotastarfsemi. Til samanburðar óska ég eftir því að hæstv. ráðherra greini frá þróuninni á Norðurlöndunum og viðbrögðum þeirra við þeirri þróun. Það er sömuleiðis mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að vita hvaða lærdóm við getum dregið af þróuninni annars staðar á Norðurlöndum og viðbrögðum stjórnvalda þar.

Ég veit að hæstv. dómsmálaráðherra hefur ákveðnar áhyggjur af svartímanum en ég hef fulla trú á henni.