154. löggjafarþing — 23. fundur,  6. nóv. 2023.

skipulögð brotastarfsemi.

323. mál
[17:57]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. 6. þm. Reykv. n. fyrir fyrirspurnina. Hv. þingmaður spyr: Hvernig hefur umfang skipulagðrar brotastarfsemi á Íslandi þróast á síðustu fimm árum? Umfang skipulagðrar brotastarfsemi á Íslandi hefur aukist verulega síðastliðin ár með sama hætti og átt hefur sér stað víða annars staðar. Embætti ríkislögreglustjóra hefur bent á að það sé mat embættisins að hér á landi sé aukin ógn vegna skipulagðrar brotastarfsemi sem fari þvert á landamæri og eru aukin umsvif fjölþjóðlegra brotahópa merkjanleg hér á landi. Í því sambandi er m.a. um að ræða brotahópa sem eru umsvifamiklir á fíkniefnamörkuðum víða um heim og brotahópa sem stunda skipulagt smygl á fólki og mansal. Þá er það mat embættisins að það séu skýrar vísbendingar um að umfangsmikið peningaþvætti fari fram á Íslandi. Ríkislögreglustjóri hefur jafnframt bent á að líklegt sé að íslenskir, erlendir og fjölþjóðlegir brotahópar muni leitast við að auka umsvif sín á Íslandi á komandi árum.

Þá má minnast á það að undanfarin misseri hefur orðið umtalsverð fjölgun brota á Íslandi þar sem hnífum er beitt og vopnatilkynningum til lögreglu hefur fjölgað verulega. Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkislögreglustjóra hefur alvarlegum ofbeldisbrotum og vopnuðum útköllum lögreglu og sérsveitar lögreglu fjölgað verulega síðustu ár. Má sem dæmi nefna að fjöldi útkalla þar sem sérsveit vopnast vegna eggvopna hefur nær fjórfaldast frá árinu 2016. Þessar tölur eru skýr vísbending um ákveðna þróun sem ég tek mjög alvarlega.

Fyrirspyrjandi spyr hvort ráðherra hyggist grípa til aðgerða til að sporna við skipulagðri brotastarfsemi hér á landi og ef svo er þá hvaða aðgerða. Nýlega hefur löggjöf á Íslandi er varðar mansal og peningaþvætti verið tekin til endurskoðunar og breytingar samþykktar sem eru til þess fallnar að sporna gegn skipulagðri brotastarfsemi. Aðstæður í löggæslu hafa breyst og nú snýr löggæsla ekki síður að frumkvæðisvinnu í formi upplýsingaöflunar og greiningar upplýsinga. Breytt afbrotamynstur og útbreiðsla alþjóðlegrar skipulagðrar brotastarfsemi krefst þess að löggæsluyfirvöld geti brugðist við og gripið til aðgerða áður en einstök brot eru framin.

Veigamiklar aðgerðir til varnar afbrotum má finna í fyrirliggjandi frumvarpi til breytinga á lögreglulögum. Frumvarpið er nú í samráðsgátt en ég hyggst leggja það fyrir Alþingi á næstu vikum. Ég tel frumvarpið nauðsynlegan þátt í því að efla aðgerðarheimildir lögreglu þegar kemur að baráttunni gegn skipulagðri brotastarfsemi. Eitt af markmiðum lagafrumvarpsins er að skýra heimildir lögreglu til að grípa til aðgerða í þágu afbrotavarna, einkum hvað varðar afbrot sem tengjast skipulagðri brotastarfsemi og brot sem varða öryggi ríkisins.

Skipulögð brotastarfsemi er alþjóðleg í eðli sínu og krefst þess að löggæsluyfirvöld geti brugðist við á grundvelli upplýsinga og gripið til aðgerða áður en einstök brot eru framin. Samhliða þessu kveður frumvarpið á um að eftirlit með lögreglu verði eflt með markvissum hætti, bæði hvað varðar ytra eftirlit af hálfu nefndar um eftirlit með lögreglu og innra eftirlit af hálfu embættis ríkislögreglustjóra, auk þess sem gert er ráð fyrir að nefnd um eftirlit með lögreglu skili Alþingi árlega skýrslu.

En hvernig hefur umfang skipulagðrar brotastarfsemi þróast á Norðurlöndunum á síðustu fimm árum? Á það hefur verið bent á Norðurlöndunum að fíkniefnamarkaðurinn hafi tekið breytingum undanfarin ár. Það má segja að aukin atvinnumennska einkenni starfsemi skipulagðra brotahópa, svo sem er varðar innflutningsleiðir og sölufyrirkomulag, fleiri hópum sé nú kleift að flytja inn fíkniefni en áður og enn fremur hafa smáforrit og samfélagsmiðlar gert sölu og dreifingu fíkniefna til neytenda auðveldari.

Þá hefur það gerst í auknum mæli að afbrotamenn hafa komið sér fyrir erlendis þar sem þeir taka þátt í skipulagningu fíkniefnaviðskipta innan fjölþjóðlegrar brotastarfsemi. Á Norðurlöndunum hafa skipulagðir brotahópar náð að skjóta rótum og hefur það haft í för með sér margvíslegan samfélagslegan vanda. Bæði í Svíþjóð og Danmörku hafa átök skipulagðra brotahópa verið áberandi. Vopnaburður hefur aukist auk þess sem alvarlegum líkamsárásum hefur fjölgað sem og manndrápum. Þessi þróun hefur haft í för með sér fjölmargar skotárásir og sprengjuárásir síðastliðin ár sem hafa í einhverjum tilvikum skaðað almenna borgara.

Nýlega tók ég þátt í ráðherrafundi með dómsmálaráðherrum annarra Norðurlanda þar sem efnt var til þekkingar- og reynsluskipta um skipulagða brotastarfsemi og að mínu mati er miðlun þekkingar, upplýsinga og reynslu milli ríkja lykilatriði í baráttunni gegn skipulagðri brotastarfsemi og því nauðsynlegt að efla samstarf við önnur ríki og þá sérstaklega önnur Norðurlönd.