154. löggjafarþing — 24. fundur,  7. nóv. 2023.

Störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Fyrir tæpum tveimur vikum flutti ég þingsályktunartillögu um mikilvægi þess að flýta uppbyggingu flutningskerfis raforku, þ.e. háspennta raforkukerfi landsins. Óveðrið í desember 2019, sem oft er talað um sem aðventustorminn, vakti mikla athygli á mikilvægi þess að hér á landi sé áfallaþolið flutningskerfi raforku og það sama gildir auðvitað um dreifikerfið. Hér er auðvitað verið að tala um hringtenginguna sem nú er unnið að að endurbyggja og styrkja og einnig er rétt að líta til háspenntu raforkulínanna sem byggja upp svæðisbundnu kerfin. Í fréttaflutningi þessa dagana sjáum við mikilvægi þess að farið verði sem fyrst í framkvæmdir í raforkukerfinu. Mikilvægi Suðurnesjalínu 2 kemur upp í hugann í tengslum við eldsumbrot á Reykjanesi. Önnur frétt af uppsetningu olíuketils í fiskimjölsverksmiðju á Austfjörðum sýnir fram á mikilvægi þess að byggja upp svæðisbundna flutningskerfið á Austurlandi.

Síðan er rétt að minnast á mikilvægi þess sem er kannski uppistaðan í því að byggja upp öflugt áfallaþolið raforkukerfi um allt land: Öflugt raforkukerfi er forsenda þess að hér á landi náist markmið um minni útblástur á Íslandi. Það er auðvitað hreint og beint stórt efnahagsmál á Íslandi þar sem stefnt er að að nota innlenda orkugjafa sem allra mest og spara gjaldeyri til kaupa á erlendum orkugjöfum. Öflugt flutningskerfi er lykilatriðið í þeirri framtíðarsýn að rafvæða íslenskt samfélag. Það ætti öllum að vera ljóst sem sitja hér í þessum sal að öflugt áreiðanlegt flutningskerfi raforku er grunnforsenda fyrir orkuskiptum hér á landi. Kjarninn í því að nýta endurnýjanlega orkugjafa hér á landi er að hér sé öflugt raforkukerfi sem gildir bæði um flutningskerfi raforku og dreifikerfi. Lykilatriði og í raun þjóðaröryggismál er að flýta því sem allra mest að tengja saman virkjanir landsins, byggja upp áfallaþolið raforkukerfi og nýta betur græna orku landsins.