154. löggjafarþing — 24. fundur,  7. nóv. 2023.

Störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegi forseti. Þarna er fugl á flugi, sagði gamall vinnufélagi minn jafnan við mig þegar talið vék að einhverju sem honum fannst óþægilegt að tala um. Þetta rifjast upp hér í þinginu þegar umræðan hverfist heilu og hálfu dagana um nánast allt annað en það sem brýnast væri að ræða og sammælast um hér. Þarna er fugl á flugi.

Gerum ekki lítið úr jarðhræringunum og jarðvarmanum öllum á Reykjanesi, þeim hinum sama og knýr sjálfa hitaveitu Suðurnesja og Bláa lónið. Nú er sami jarðvarminn að ógna verulega þessum mikilvægu og arðbæru fyrirtækjum, að ekki sé minnst á mannfólkið sem þarna býr, heimilin og atvinnurekstur annan. Fréttatímar útvarps- og sjónvarpsstöðvanna gerðu þessu prýðileg skil, m.a. í gær, og sjálfur Víðir hjá almannavörnum er mættur til að sefa okkur í beinni. Megi allt fara á besta veg á þessum dýrmætu slóðum.

Sjálft vistkerfi Íslands er að stóru leyti háð þeim andstæðum sem eldurinn og ísinn eru. Mikið værum við betur stödd ef við hefðum náð betri skilningi og stjórn á þessum andhverfum sem einkenna okkar góða land. Nú er hitinn í efnahagskerfinu okkar og þenslan af hans völdum með þeim hætti að það styttist í að ísinn bráðni og þá losni um skelfilegar snjóhengjur í lífi og raunveruleika þeirra sem háðir eru síhækkandi afborgunum af íbúðunum sínum. Að óbreyttu munu á næstunni tvö- og þrefaldast afborganir af húsnæðislánum þeirra þúsunda Íslendinga sem hafa mátt horfa upp á 14 vaxtahækkanir í röð í því undarlega hagkerfi viðvarandi stórviðra sem við höfum mátt umbera áratugum saman.

Hér er engum einum um að kenna en er ekki orðið tímabært, virðulegi forseti, að við viðurkennum að við þetta verður ekki unað til áframhaldandi framtíðar? Ólgusjó íslenska efnahagskerfisins (Forseti hringir.) mætti líkja við áfengissjúkling sem ekki mun ná bata fyrr en hann viðurkennir vanmátt sinn gagnvart sjúkdómnum og leitar sér aðstoðar. Það er löngu tímabært að við viðurkennum þann viðvarandi sjúkdóm íslenska þjóðarlíkamans sem þarf að meðtaka lækningu.