154. löggjafarþing — 24. fundur,  7. nóv. 2023.

Störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Við fylgjumst nú með einhverjum harkalegustu árásum okkar tíma fyrir botni Miðjarðarhafs þar sem engin virðing er borin fyrir lífi almennra borgara og barna. António Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefur líkt Gaza-ströndinni við barnagrafreit og kallar að sjálfsögðu eftir tafarlausu vopnahléi. Hátt í 4.000 börn hafa verið drepin frá upphafi átakanna, enn fleiri hafa særst og rúmlega 1.000 barna er saknað og jafnvel talin grafin í rústum húsa. Hundruð barna eru sem sagt drepin á hverjum degi. Fleiri blaðamenn hafi verið drepnir á þessu fjögurra ára tímabili en í nokkrum öðrum átökum í a.m.k. þrjá áratugi og fleiri hjálparstarfsmenn Sameinuðu þjóðanna hafa verið drepnir á jafn löngum tíma en nokkru sinni fyrr í sögunni.

Ísland þarf að tala skýrri röddu á alþjóðavettvangi. Ísland á að tala fyrir varanlegum friði og tafarlausu vopnahléi. Fyrir utan það að hundruð barna láti lífið í árásunum á hverjum degi eru smitsjúkdómar farnir að breiðast út í ofanálag og næringarskortur farinn að gera vart við sig. Það skiptir því máli að vopnahlé komist á tafarlaust til að forða enn fleiri börnum frá dauða.

Á Gaza hefur tæpur helmingur heimila verið eyðilagður. 18 sjúkrahús, skólar, bænahús og kirkjur og heilu íbúðahverfin hafa verið lögð í rúst. Maður spyr einfaldlega: Hvers konar framtíð bíður barna í Palestínu, herra forseti? Þess vegna er krafa um tafarlaust vopnahlé eins og 18 mannúðar- og hjálparstofnanir hafa kallað eftir nú í vikunni. Við Íslendingar erum smáþjóð sem á allt undir því að alþjóðalög og mannréttindi séu virt. Okkar sterkasta vopn í þeirri baráttu er röddin okkar, en sú rödd verður að vera skýr og afdráttarlaus (Forseti hringir.) og það verður að vera krafa að stjórnvöld tali einum rómi.