154. löggjafarþing — 24. fundur,  7. nóv. 2023.

Sameining framhaldsskóla.

[14:22]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur hjartanlega fyrir að koma með þessa gegnu og góðu sérstöku umræðu hér til okkar og hæstv. ráðherra Ásmundi Einari Daðasyni fyrir að taka þátt í þessari umræðu með okkur. Það sem ég hnaut um og gleðst einstaklega yfir eru þau svör sem hæstv. ráðherra gaf hér og nú, ég gat ekki skilið það öðruvísi en svo að öll áform, þessi stórfurðulegu sameiningaráform, væru komin út af borðinu. Það er einstaklega ánægjulegt, því að eins og hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir fór mjög vel yfir í sinni framsögu hér áðan og gerði glögga grein fyrir þá var þetta einfaldlega ekki að ganga upp og það hefur legið á borðinu allan tímann. Þessi sameining var sameiningarinnar vegna. Hún var ekki af hugsjón fyrir þá nemendur sem eru að sækja þessa skóla. Það er t.d. einkennilegt að tala um hvað sé mikil þörf fyrir frekara rými og hvað sé mikil fjölgun á nemum sem þurfa að leita sér menntunar í framhaldsskólunum á sama tíma og það átti að slengja þessu saman, tveimur skólum í einn. Ég veit ekki hvað það hefði kostað að stækka, eða átti kannski þá bara að fækka nemendum í þessum eina sameinaða skóla um helming? Og eins og hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir benti réttilega á er það svolítið athyglivert að vera ekki einu sinni búinn að útfæra þá hugsun hvernig eigi að takast á við annars vegar bekkjakerfi og hins vegar áfangakerfi. Á hverjum bitnar það nema sjálfsvaldi nemandans um það hvaða menntaveg hann vill ganga; vill hann áfangakerfi eða vill hann bekkjakerfi? Þannig að ég segi bara enn og aftur: Ég hrópa ferfalt húrra fyrir hæstv. ráðherra þegar hann hefur látið af þessari ófremdarframgöngu sinni í áttina að sameiningu skólanna og gleðst hjartanlega yfir því. Áfram veginn, hæstv. ráðherra.