154. löggjafarþing — 24. fundur,  7. nóv. 2023.

vopnalög.

349. mál
[15:07]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar það verður komin reynsla á þær breytingar sem er verið að leggja hér til í þessum lögum um skotvopn þá hefur sú sem hér stendur áhuga á því að taka lögin til heildarendurskoðunar, en að því gefnu að við séum að stíga þessi skref núna. Þau eru nauðsynleg og ég tel sömuleiðis í framhaldinu nauðsynlegt að við förum í heildarendurskoðun.

Með frumvarpinu er einnig lagt til að það verði hægt að setja í reglugerð tímabundna heimild til að innkalla skotvopn. Þetta hefur verið gert í öðrum löndum og reynst mjög vel og sömuleiðis sjáum við það fyrir okkur að hér verði í framtíðinni ákveðnir dagar þar sem fólk geti skilað inn skotvopnum án þess að það komi refsing fyrir ef það hefur haft skotvopn í fórum sínum en líka, og við þekkjum það eins og hv. þingmaður nefnir, ef í uppgjörum dánarbúa finnst óvænt vopn sem enginn veit hvernig rataði til viðkomandi, að það sé hægt að skila þeim en þau liggi ekki hjá röngum aðilum og alls ekki hjá einstaklingum sem hafa ekki skotvopnaleyfi.