vopnalög.
Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Mig langar að beina sjónum mínum að dálítið öðrum þætti í seinna andsvari. Nú er það svo að sú sem hér stendur er með skotvopnaleyfi en þegar leið að gæsatímabilinu í sumar rak hún augu í að leyfið var útrunnið. Þannig að ég fór af stað til að endurnýja skotvopnaleyfið og eftir þá vegferð varð ég ansi hugsi. Læknisvottorð sem þarf að skila þegar sótt er um skotvopnaleyfi eða það endurnýjað endurspeglar einhvern ótrúlega sérstakan raunveruleika og alls ekki þann sem það ætti að gera. Það sem er athugað er sjón og gott ef það var ekki tekinn blóðþrýstingur en það hvort ég hafi andlega eða líkamlega færni, getu eða heilsu til að meðhöndla skotvopn er eitthvað sem raunverulega er ekkert unnið með í þessu læknisvottorði. Það segir okkur það að raunverulega hver sem er getur útvegað sér slíkt vottorð með litlum fyrirvara. Þótt það eigi nú kannski ekki heima undir þessu frumvarpi hérna þá vildi ég vekja athygli ráðherra á þessu og brýna hana til þess að skoða þessi mál af því að ég tel þetta mjög alvarlegt. Við á Íslandi erum og höfum verið í áraraðir þjóð sem nýtir skotvopn. Hér nýtum við skotvopn til veiða. Hér er þetta í ákveðnu íþróttastarfi. Við erum með skotfélög sem eru að keppa og mjög stór hópur fólks er með skotfæraleyfi. Ég tel það brýnt og ítreka hvort ekki þurfi, (Forseti hringir.) eins og samfélagið er að breytast hratt, að halda betur um það hverjir (Forseti hringir.) geta fengið leyfi og hvers konar vottorði þurfi að skila af því tilefni.