154. löggjafarþing — 24. fundur,  7. nóv. 2023.

samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir.

71. mál
[16:47]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni fyrir að flytja þetta ágæta frumvarp sem er í sjálfu sér góð tillaga. Allar tillögur eru vel þegnar þegar við horfum á mikilvægar framkvæmdir til samgöngubóta. En þá er það líka spurningin hvernig við getum framkvæmt það og það er eitt sem ég staldra svolítið við sem segir hérna í frumvarpinu:

„Með samþykkt frumvarpsins geta sveitarfélög sjálf stuðlað að flýtingu á vegaframkvæmdum umtalsvert. […] Að framkvæmdinni lokinni er félaginu heimilt að innheimta veggjald fyrir akstur um veginn og á móti myndi ríkið skuldbinda sig til að „kaupa“ sig inn í félagið með framlagi …“

Nú erum við í umhverfis- og samgöngunefnd að fjalla um samgönguáætlun og þá velti ég fyrir mér: Fjársterk sveitarfélög eða þá landshlutar sem myndu taka sig saman um einhverja ákveðna flýtiframkvæmd — hv. þingmaður nefndi t.d. Skógarströndina og við vitum að það eru einhverjir milljarðar þar undir til að klára hana. Við viljum öll ná henni framar á dagskrá og kannski væri þetta ein leið til þess. En erum við þá ekki svolítið að yfirtaka þá áætlun sem við erum að leggja hérna fram sem heyrir undir allt landið ef eitthvert eitt landsvæði sem er sterkara, eins og bara höfuðborgarsvæðið, ef það færi í svona miklar framkvæmd, hvað yrði þá eftir fyrir hitt svæðið þegar að samgönguáætlun kemur? Hvernig hugsa hv. framsögumenn þessa frumvarps samgönguáætlun í framtíðinni? Á hún að taka tillit til þeirra framkvæmda sem þegar hafa verið gerðar með þessari aðferð?