154. löggjafarþing — 24. fundur,  7. nóv. 2023.

samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir.

71. mál
[16:49]
Horfa

Flm. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hér er verið að bjóða upp á leið til þess einmitt að auka möguleika og valfrelsi í að koma hlutum áfram. Hér er ekki ákveðið hvort framlag ríkisins eigi að vera 10, 20, 30, 40, 50 eða 60%, eða hvað það er, og hvað umferðin ætti að greiða stóran hluta. Það er raunverulega bara viðskiptaáætlun fyrir hvern veg til að vinna með og það eru ýmis tækifæri sem tengjast því. Ef við segjum að 50% væri framlag ríkisins og síðan 50% á móti þá yrði það náttúrlega viðkomandi áætlunar fyrir þá framkvæmd, viðskiptaáætlunar eða hvað við myndum vilja kalla það, að standa undir því. Þannig að það þarf að meta það fyrir hvert og eitt verkefni.

Við erum náttúrlega hérna á höfuborgarsvæðinu. Ég reikna með að hv. þingmaður sé sammála mér, segjum varðandi samgönguframkvæmdir á svæðinu, að það er enn þá verið að fást svolítið við hvernig við eigum að fjármagna hlutina. En ríkið er náttúrlega samt að bera góðan hluta af því, það endar væntanlega þannig.

Ef við tökum borgarlínuna inn í þetta og þessi kostnaðarhlutföll — þetta er eiginlega bara nákvæmlega sama leið og er verið að hugsa um þar en það þarf alltaf að vera einhver veruleiki á bak við. Ég reikna með að í þessum dæmum myndum við kannski vilja hafa annað en við sjáum í ákveðnum verkefnum hér á höfuðborgarsvæðinu sem ríkið er að fara í, að það yrðu væntanlega alltaf góðar rekstraráætlanir bak við framkvæmdirnar. Það sem er að gerast á Íslandi er að mjög víða eru ferðamenn orðnir svo stór hluti af umferðinni. Auðvitað horfum við til þess möguleika að skapa gott aðgengi að ákveðnum svæðum með þeirri umferð sem í dag er væntanlega komin yfir 20% af eknum kílómetrum í landinu í gegnum ferðamennina og þessa 30.000 bílaleigubíla. Þannig að hér erum við að tala um ákveðna framtíð sem er bara veruleiki á Íslandi og við gætum unnið miklu betur með en við gerum í dag.