154. löggjafarþing — 24. fundur,  7. nóv. 2023.

nýsköpunar-, rannsókna og þróunarsjóður ferðaþjónustunnar.

62. mál
[17:11]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Sá sem hér stendur hefur mikinn áhuga á ferðaþjónustu og hagrænum þáttum hennar. Lokaverkefnið mitt í viðskiptafræði snerist um tekjugrunn íslenskrar ferðaþjónustu. Það var fyrir bráðum 20 árum síðan og það var varla nokkur áhugi í landinu á þessu málefni. Ég var svo heppinn að Seðlabankinn og Hagstofa Íslands unnu fyrir mig gögn fyrir lokaverkefni mitt vegna þess að þær stofnanir sáu áhugaverða vinkla á því sem ég var að hugsa um.

Ég verð að taka undir margt gott sem er í þessu máli. Við þurfum virkilega að efla hagrænar rannsóknir sérstaklega, ég vil vekja sérstaklega athygli á því, miðað við umfang ferðaþjónustu á Íslandi, gjaldeyristekjur og í samhengi hlutanna. Þegar þetta var sem mest árið 2018, minnir mig, voru tekjur af ferðaþjónustunni 42% af gjaldeyristekjum Íslendinga, þegar flugið og ferðaþjónustan innan lands var tekin með og erlendir ferðamenn. Þetta eru gríðarlega stórar tölur. Á þessu ári verður þetta væntanlega yfir 30%, ég held að það hafi verið 25% í fyrra, sambærilegar tölur, og verður væntanlega í kringum 8% af landsframleiðslu á þessu ári, var 7,5% af landsframleiðslu í fyrra. Þetta er á svipuðum nótum og sjávarútvegurinn í hagtölum fyrir Ísland. Þannig að ég fagna þessu.

Er þá ekki alveg ljóst, eins og ég skil hv. þingmann sem ber fram tillöguna, að hér er ekki verið að breyta neitt varðandi Rannsóknarmiðstöð ferðamála, hvernig hún er byggð upp og hver staðsetning hennar er á Akureyri og í Reykjavík? Höfuðstöðvarnar eru á Akureyri og hafa verið lengi. Sá sem hér stendur hefur meira að segja unnið verkefni undir þessari ágætu stofnun. Hvernig sér hv. þingmaður þetta? Er það ekki fyrst og fremst að það sé til fjármagn til rannsókna? Það voru áhugaverður tölur varðandi Tækniþróunarsjóð, og ef hv. þingmaður gæti kannski útskýrt aðeins betur tölurnar um Austurland, ég náði því ekki alveg.