154. löggjafarþing — 25. fundur,  8. nóv. 2023.

þjóðarmarkmið um fastan heimilislækni og heimilisteymi.

19. mál
[16:16]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Kristrúnu Frostadóttur fyrir sína framsögu í þessu ágæta máli. Það vakna náttúrlega ýmsar spurningar eins og hv. þingmaður réttilega bendir á og fyrsta spurningin — ég ætlaði eiginlega ekki að koma í andsvar en það stuðaði mig svolítið þegar verið var að tala um að fara að mismuna þegnunum því það er tryggt í 65. gr. stjórnarskrár að það eigi allir að vera jafnir fyrir lögum, óháð kynþætti, stétt eða stöðu. Í þessari þingsályktunartillögu kemur hreinlega fram að það eigi að reyna að örva læknanámið og tryggja það betur með því að fella jafnvel niður námslán að fullu ef ákveðnir heimilislæknar eru tilbúnir að vera úti á landi, í ég veit ekki hvað langan tíma. Það væri gaman að vita hvort það væri komin einhver sviðsmynd á það.

Hér er talað svolítið um að tryggja kostnað og viðbótarkostnað þannig að mig langar líka til að inna hv. þm. Kristrúnu Frostadóttur eftir því hvort það sé kominn einhver verðmiði á þessar áætlanir. Svo er líka hitt, það er eitt að fá heimilislækni. Maður þekkti það í gamla daga að það var heimilislæknir og héraðslæknir í hverju einasta krummaskuði úti um allt land og við sem bjuggum við slíkt höfðum öryggi af því. En það brá líka við að við einangruðumst vegna vályndra veðra og annað slíkt og við komumst hvorki lönd né strönd frá sveitarfélaginu okkar til að leita aðstoðar á sjúkrahúsunum ef fólk hefði þurft að fara og sækja aðgerðir og annað slíkt. Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að ætla að tryggja í rauninni það að fólk komist til og frá sveitarfélaginu sínu þrátt fyrir hinn góða heimilislækni sem ætlar þá að senda viðkomandi í nauðsynlega bráðaaðgerð hér eða hvar þegar við vitum og þekkjum að innviðirnir okkar eru því miður ekki tilbúnir til að fylgja því eftir? Það er svona þetta til að byrja með.