154. löggjafarþing — 25. fundur,  8. nóv. 2023.

þjóðarmarkmið um fastan heimilislækni og heimilisteymi.

19. mál
[16:46]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir andsvarið og spurningarnar. Varðandi Menntasjóð og þessa ívilnun þar inni þá veit ég að það er verið að vinna með þetta í Byggðastofnun og það eru þá sveitarfélögin og það er eitthvert teymi sem þarf að fara í gang og hefur farið í gang. Ég veit ekki til þess að það vanti fjármagn, það er verið að nýta þetta á einhverjum stöðum. Vissulega hefur þetta farið nokkuð hægt af stað. Ég þekki ekki hvort það er eftirspurnin eða formið sem vantar, en þetta er alla vega komið inn í lögin, það var gert á síðasta kjörtímabili og það er farið að vinna eftir þessu. En ég hef ekki stöðuna eða upplýsingar um það hversu margir eru að nýta þetta eða hvort eftirspurnin hefur verið nógu mikil, fyrirspurnirnar nógu margar.

Hvað varðar mönnun á heilbrigðisstarfsfólki þá er sá skortur náttúrlega ekki séríslenskt fyrirbæri og er vandamál víða um heim og orðinn mikill skortur á læknum sérstaklega og það er orðið verulega mikið vandamál á sumum stöðum. Hvort það vantar meira fjármagn — kannski er hægt að laga stöðuna eitthvað með því en það er fleira sem þarf að koma til. Það eru bara, eins og ég nefndi áðan, breytt lífsviðhorf fólks líka varðandi það að vilja vinna við þessar aðstæður. Þetta er gríðarleg ábyrgð og annað. En ég veit að það er verið að vinna með þetta hér á landi því að það hlýtur að vera hægt að vinna að þessu máli með séríslenskum leiðum hér á landi eins og er kannski verið að gera annars staðar. En þetta er alþjóðlegt vandamál.