154. löggjafarþing — 25. fundur,  8. nóv. 2023.

þjóðarmarkmið um fastan heimilislækni og heimilisteymi.

19. mál
[17:05]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Ég get vottað það hér og staðfest að ef Flokkur fólksins tæki við heilbrigðisráðuneytinu þá yrði þessu kippt í lag á innan við einu ári. (Gripið fram í.) Heyr, heyr. Og ef Samfylkingin tekur við heilbrigðisráðuneytinu þá treysti ég þeim til að gera slíkt hið sama og ég veit innst inni að hæstv. heilbrigðisráðherra Willum Þór Þórsson vill koma þessu í lag. Þá vona ég að það sannist ekki enn einu sinni upp á okkur hér í þessum sal að það sé ákveðin forsenda fyrir ráðherra til að ná að klára sín mál almennilega að þeir séu í sama flokki og fjármálaráðherra hverju sinni. Það er nú dálítið löng saga slíkra samhengja að það eru þeir sem eru í sama flokki og fjármálaráðherrann sem fá sínu framgengt. Hinir eru stundum látnir dankast með vandamálin og mega ekki endilega fá að klára þau eins og þyrfti að gera. Heilbrigðismál númer eitt, menntamál númer tvö. Fólkið fyrst, svo allt hitt, segjum við.

Hvers vegna í dauðanum erum við búin að hafa hér einhverja áhrifamenn úr læknastétt að ákveða hverjir fái að komast að og klára nám hér við læknadeild Háskóla Íslands? Því er borið við að við höfum ekki nógu mörg tækifæri til starfsþjálfunar eða eitthvað slíkt. Svo er fólk að kaupa sér menntun í Ungverjalandi eða einhvers staðar annars staðar. Það er náttúrlega bara galið. Það á bara að framleiða þá og mennta þá sem vilja starfa við læknisþjónustu og hjúkrun hér á Íslandi og koma upp aðstöðu til þess að þjálfa þá og skipta þeim þá út eftir atvikum. Það er löngu úrelt (Forseti hringir.) að pípulagningamenn ráði hversu margir nýir pípulagningamenn fái að koma á markað eða tónlistarmenn geti ráðið því hversu margir samkeppnisaðilar koma inn á markaðinn. (Forseti hringir.) Þannig að ég segi: Við skulum bara koma þessu í lag með ráðum og dáð. Látum ekki bjóða okkur þennan biðsal mikið lengur.