154. löggjafarþing — 25. fundur,  8. nóv. 2023.

þyrlupallur á Heimaey.

75. mál
[17:47]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Frú forseti. Ég vildi hlaupa upp í pontu Alþingis og taka undir þessa þingsályktunartillögu og mikilvæg er hún. Sjálfur er ég á þessari fínu þingsályktunartillögu um þyrlupall á Heimaey. Það skiptir máli. Vestmannaeyingar treysta gríðarlega mikið á sjúkraflug og það er mikill fjöldi fluttur með flugvélum nú þegar. Eins og kemur fram í greinargerð málsins, þegar veður eru válynd og ekki er hægt að lenda hefðbundnum flugvélum vegna skyggns eða skýjahæðar, þá hefur oft þurft að fá aðstoð frá Landhelgisgæslunni og þyrlu á vegum Gæslunnar. Þess vegna skiptir mjög miklu máli, eins og kemur fram í greinargerðinni, að það sé ekki verið að nota vegi í bænum undir þessa starfsemi, að lenda þyrlunni þar sem er ekkert vel verndað svæði endilega í kringum lendingarstaðinn eða þar sem lent er. Hér er rætt um að það sé sérstakur þyrlupallur í Vestmannaeyjum í nágrenni við bæinn eða í bænum sem er þá sérmerktur með ljósum. Annað sem er líka mikilvægt hér og kemur fram í greinargerðinni er varðandi gervihnattaleiðsögu, GPS og EGNOS, sem sá sem hér stendur hefur talað mikið fyrir að nái yfir Ísland allt. Það nær inn á hluta austurhluta landsins en er ekki komið inn á vesturhlutann. Það skiptir miklu máli. Það gerir að verkum að það er hægt að fljúga aðflug inn á þyrlupallinn og fá aðstoð við að lenda í verri veðrum og skýjahæð. Þannig að ég vildi bara rétt hlaupa hér upp í pontu Alþingis og taka undir það sem hér kemur fram í þessari fínu þingsályktunartillögu. Ég tek undir orð framsögumanns, sem hefur margoft borið þetta mál upp í þinginu, væntanlega núna í fimmta skiptið eða svo, að það fái framgöngu í sumar vegna þess að þetta er heilmikið öryggismál fyrir Vestmannaeyjar og þá sem heimsækja Eyjar.