154. löggjafarþing — 26. fundur,  9. nóv. 2023.

eftirlit með störfum lögreglu.

[10:37]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Í tilefni þess að hæstv. dómsmálaráðherra vill reyna að ná í gegnum þingið frumvarpi um auknar eftirlitsheimildir til handa lögreglu er ekki úr vegi að fara yfir hvernig hefur gengið að sinna eftirliti með eftirlitsheimildum lögreglu hingað til. Árið 2016 var gerð breyting á lögum um meðferð sakamála sem sneri að skilyrðum, framkvæmd og eftirliti með símahlustun og skyldum úrræðum sem lögregla hefur til að fylgjast með fólki sem grunað er um afbrot. Þar er m.a. kveðið á um að ríkissaksóknari hafi eftirlit með því að gögnum sé eytt og að tilkynnt sé um aðgerðir og setji reglur um hvernig eftirlitinu verði háttað, þar sem m.a. komi fram hvernig tryggt verði að unnt sé að upplýsa hver eða hverjir hafi haft aðgang að t.d. þessum hlerunum sem oft innihalda viðkvæmar persónuupplýsingar og eru jú einkasímtöl á milli manna, og hafi aðgang að þeim upplýsingum sem aflað hefur verið með þessum aðgerðum.

Í fimmtu skýrslunni sem ríkissaksóknari, æðsti handhafi ákæruvalds á Íslandi, hefur skrifað kemur fram að lögreglan sætir alls ekki þessu eftirliti og hefur skirrst við að gera þær breytingar sem þarf á sínum tækjabúnaði til að ríkissaksóknari geti sinnt þessu eftirliti sínu. Lögreglan skráir ekki hvenær hún eyðir gögnum, lögreglan fylgist ekki með hverjir hafa aðgang að þessum gögnum og hún setur ekki inn í LÖKE-kerfið eins og ríkissaksóknari hefur gert áskilnað um. Ríkissaksóknari hefur gert ákall um það í mörg ár í röð að lögreglan fylgi lögum og geri ríkissaksóknara kleift að hafa eftirlit með hlerunaraðgerðum og öðrum eftirlitsaðgerðum lögreglunnar, án þess að lögreglan hafi með nokkru móti brugðist við. Við nánari eftirgrennslan kemur raunar í ljós að lögreglan er ekkert mikið í því að eyða gögnum þótt hún eigi að eyða þeim eða að tilkynna fólki um að það hafi verið hlerað þótt hún eigi að gera það og hún skráir þetta (Forseti hringir.) heldur ekki niður. Þetta er búið að viðgangast (Forseti hringir.) alveg frá því að þessum lögum var breytt, virðulegur forseti. Hvað ætlar hæstv. dómsmálaráðherra að gera í þessu máls?