154. löggjafarþing — 26. fundur,  9. nóv. 2023.

afstaða Íslands vegna átaka fyrir botni Miðjarðarhafs.

469. mál
[12:51]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. utanríkismálanefnd fyrir þá tillögu sem við ræðum hér í dag og þakka fyrir þá samstöðu sem við erum hér að sýna. Það er svo mikilvægt að við getum sett pólitískan ágreining okkar, okkar sérstöku skoðanir á málefnum, aðeins til hliðar þegar svona gríðarlega stórt og mikilvægt mál eins og hér um ræðir er á dagskrá. Við erum öll sammála um að kalla eftir vopnahléi. Að mínu mati er vopnahlé alltaf af mannúðarástæðum og mér finnst óþarfi að taka það sérstaklega fram.

Mig langar að segja að ég var meyr bæði í gær og í dag undir þessari umræðu af því að við erum hér að stíga svo miklu stærri skref, við erum að gera svo miklu stærri hluti heldur en hið daglega pólitíska þras, sem ég er ekki að segja að skipti engu máli heldur að við séum fær í þessu húsi, hinu háa Alþingi, til að leggja aðeins til hliðar okkar persónulegu skoðanir og ágreining þegar svona stórt mál er undir, og í ályktuninni erum við skýr. Við erum einróma og við erum skýr og það er gríðarlega mikilvægt. Sundrungin sem við erum að horfa upp á um allan heim — á stríðshrjáðum svæðum, í samfélagsumræðu, í ótrúlegustu hlutum sjáum við mikla sundrung. Við sjáum minna af því að við séum að tala okkur saman, að við séum að tala út frá lausnum, heldur virðumst við allt of oft detta í þá gryfju að herða á átökunum til að standa fast á okkar ýtrustu kröfum og skoðunum frekar en að taka samtalið og ná góðri málefnalegri lausn sem nýtist okkur öllum í samfélaginu.

Ég er svo þakklát fyrir að fram er komin þessi tillaga af því að á hverjum einasta degi fáum við fréttir, við sjáum myndir. Það er af sem áður var að fréttirnar berist vikum og mánuðum seinna úr skotgröfunum, við erum að horfa upp á hryllinginn í beinni útsendingu. Börnin okkar og unglingarnir okkar eru að horfa á hryllinginn á samfélagsmiðlum í beinni útsendingu og við sitjum hér uppi á Íslandi, herlaus, friðsöm þjóð, og við fyllumst af vanmætti. En hvað getum við gert? Og mig langar að árétta að Ísland er að standa sig gríðarlega vel. Við höfum tekið á móti fleiri palestínskum flóttamönnum heldur en öll önnur Norðurlönd að ég held samanlagt. Við höfum tvöfaldað fjárhagsstuðninginn og við eigum öll að vera stolt af þessu, hvar sem við sitjum í flokki eða pólitík. Við eigum að standa í lappirnar fyrir það fólk sem nú líður gríðarlegar hörmungar vegna átaka tveggja herskárra aðila sem meta líf þessa fólks á engan hátt að verðleikum. Höldum áfram að standa með óbreyttum borgurum. Ég tek undir með hv. þm. Steinunni Þóru: Gleymum ekki, þó að fókusinn sé núna á þessa hryllilegu styrjöld sem íbúar í Palestínu búa við núna, að þetta eru ekki einu átökin. Þetta er ekki eini staðurinn á jarðarkúlunni þar sem fólk, konur og börn líða og deyja hvern einasta dag. Ísland er friðelskandi, herlaus þjóð. Við eigum alltaf að tala fyrir friði alls staðar.