154. löggjafarþing — 27. fundur,  9. nóv. 2023.

afstaða Íslands vegna átaka fyrir botni Miðjarðarhafs.

469. mál
[13:00]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Umræða dagsins í dag hefur sýnt svo ekki verður um villst að enginn í þessum sal er ósnortinn af þeim skelfilegu atburðum sem nú eiga sér stað fyrir botni Miðjarðarhafs. Ég tel að það sé alveg gríðarlega mikilvægt að Alþingi geti hafið sig yfir pólitískt þjark hversdagsins og talað með skýrri röddu í atburðum þar sem fórnarlömbin eru fyrst og fremst venjulegt fólk, óbreyttir borgarar.

Mig langar að nota þetta tækifæri til að þakka utanríkismálanefnd Alþingis fyrir góða vinnu þar sem dregin eru fram skýr sjónarmið sem birtast í þessari tillögu og að vinna þá vinnu í samstöðu. Það er gríðarlega mikilvægt að mínu viti að Ísland sendi þannig skýr skilaboð út í alþjóðasamfélagið, skýran vilja Alþingis um tafarlaust vopnahlé, að alþjóðalög séu virt í þágu mannúðar, borgaralegir innviðir séu ekki skotmark og að fordæma hryðjuverkaárás Hamas-liða á almenna borgara í Ísrael sem og þær aðgerðir ísraelskra stjórnvalda í kjölfarið sem brjóta gegn alþjóðlegum mannúðarlögum. Þetta eru mjög skýr skilaboð. Ég vil nýta tækifærið og segja að ég er mjög stolt af því að tilheyra Alþingi Íslendinga á svona tímum.