154. löggjafarþing — 27. fundur,  9. nóv. 2023.

afstaða Íslands vegna átaka fyrir botni Miðjarðarhafs.

469. mál
[13:08]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég hef þegar þakkað nefndarmönnum í hv. utanríkismálanefnd fyrir þeirra góða framlag í þessu máli. Ég má til með að þakka öðrum hv. þingmönnum sem hafa lagt til málsins, m.a. í þessari umræðu. Við komum úr ólíkum áttum með ólíkar skoðanir og viðhorf og það er mikilvægt að hlusta á hvert annað. Við hérna inni einblínum allt of oft á það að tala, á það sem við höfum að segja. Það var svo gott að hlusta á það í dag sem sameinar okkur sterkt. Texti þessarar tillögu liggur fyrir og skilaboðin eru skýr og mikilvæg: Við sameinumst um fordæmingu á ofbeldi, virðingu fyrir alþjóðalögum, vernd almennra borgara og varanlega friðsamlega lausn fyrir þjóðirnar fyrir botni Miðjarðarhafs. Ég segi því stolt já við þessari sameiginlegu tillögu allra stjórnmálaflokka á Alþingi Íslendinga. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)