154. löggjafarþing — 27. fundur,  9. nóv. 2023.

almennar sanngirnisbætur.

449. mál
[13:42]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir framsöguna. Þetta er að vissu leyti mjög áhugavert frumvarp og fyrirmyndin frá Noregi er það líka þótt við ætlum ekki að fara sömu leið þar sem sanngirnisbótanefndin þar er undir Stórþinginu en ekki stjórnsýslustofnun sem við virðumst ætla að setja á fót.

Ég er hlynntur þessu frumvarpi að mörgu leyti en mér finnst ákveðinn hluta vanta. Ég tek undir það sem kom fram í andsvari hv. þm. Gísla Rafns Ólafssonar um Kleppjárnsreykjamálið, ég er meðflutningsmaður að því máli. Það sem mér finnst vera hér undir er að það á að greiða bætur þeim sem orðið hafa fyrir varanlegum skaða vegna háttsemi opinberra aðila, stofnana. Það virðist ekki vera gerð krafa um að það sé búið að rannsaka þessa háttsemi áður, það sé komin rannsóknarskýrsla um að háttsemin á stofnun X hafi verið mjög slæm og valdið varanlegum skaða. Það er annað líka sem er hér undir og það er að einstaklingar, eins og segir í 4. mgr. 2. gr., eiga ekki rétt á sanngirnisbótum nema þeir hafi áður tæmt önnur réttarúrræði, þar á meðal fyrir dómstólum.

Mér finnst vanta það að ef einstaklingur sækir um sanngirnisbætur hjá nefnd þá liggur ekki fyrir að viðkomandi stofnun hafi hagað sér með þannig hætti að mögulega geti hún hafa valdið varanlegum skaða og síðan þarf einstaklingur líka að vera búinn að fara fyrir dómstóla og ekki hafa fengið úrlausn sinna mála. Í greinargerðinni sé ég að það er t.d. talað um fyrndar kröfur, krafa einstaklings sem varð fyrir skaða vegna slæmrar meðferðar er viðurkennd, en krafan er fyrnd. Það virðist þá vera að þessar sanngirnisbætur eigi jafnvel eingöngu við um fyrndar kröfur. Er ekki réttara að það liggi fyrir rannsókn á starfsemi stofnunarinnar, á háttsemi stofnunar, sem er ámælisverð og það sé grunnurinn fyrir því að sanngirnisbætur séu greiddar út? (Forseti hringir.) En svo virðist vera að nefndin sjálf eigi að afla gagna og fara í þetta rannsóknarstarf, jafnvel eftir að dómstólar eru búnir að skoða málið. (Forseti hringir.) Mér finnst það ákveðinn tvíverknaður fyrir fólkið sem er að sækja um bætur, að þurfa fyrst að fara fyrir dómstóla og svo fyrir sanngirnisbótanefnd. (Forseti hringir.) Spurningin er þessi: Þarf ekki fyrst að liggja fyrir rannsóknarskýrsla til grundvallar?

(Forseti (LínS): Þingmenn eru minntir á að virða ræðutíma.)