154. löggjafarþing — 28. fundur,  13. nóv. 2023.

vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga.

485. mál
[13:37]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegi forseti. Ég er eiginlega bara agndofa yfir þessum atburðum sem hafa átt sér stað um helgina og það eru engin orð sem geta lýst hvernig manni líður á þessum tímapunkti. Ég fór á íbúafund sem haldinn var í Stapanum 8. nóvember, mjög yfirgripsmikill fundur og mikill fróðleikur sem vísindamenn báru á borð fyrir okkur. En það var enginn sem lét sér detta í hug að það sem hefur teiknast upp núna myndi eiga sér stað, enginn. Við vorum að ræða kvikuinnskot fyrir norðan Þorbjörn, en að sjá síðan kvikuna stökkva bara yfir götuna og taka svo strauið beint niður í Grindavík á örskotsstundu — það er ótrúleg atburðarás sem var greinilega ekki hægt að sjá fyrir og vakna síðan upp við vondan draum að kvikan var bara komin undir fætur Grindvíkinga á föstudagskvöldinu. Ég hristist og nötraði heima hjá mér á föstudagskvöld og maður getur svo sem ímyndað sér hvernig staðan var heima hjá Grindvíkingum sem voru nánast með skjálftana undir löppunum á sér. Það hlýtur að hafa verið skelfileg upplifun.

Það sem við erum að gera hér í dag finnst mér vera byrjun á stóru og miklu verkefni sem ég held að muni taka langan tíma. Það sem búið er að gera voru bara bjargráð, að koma fólki í skjól, og síðan hljótum við að spyrja: Hvað svo? Hvað verður um fólk sem hefur þurft að yfirgefa heimili sín? Hvað verður lítil börn sem hafa verið rifin upp úr skóla og frá vinum sínum? Hvað verður um fyrirtækin sem eru að afla tekna til þess að fólk geti síðan séð fyrir sér? Hvernig eiga lítil fyrirtæki að borga reikninga eða senda út reikninga? Hvernig á stjórnsýslan að virka? Allt eru þetta stórar og miklar spurningar sem við þurfum að svara og við þurfum að vera tilbúin á vaktinni á hvaða tíma sem er næstu daga, vikur og jafnvel mánuði. Maður sér þó alveg ótrúlegan kraft í umhverfinu og fólkinu sem hefur verið á vaktinni alla helgina, staðið sig alveg framúrskarandi vel. Maður sér líka viðbrögðin hjá Grindvíkingum sjálfum sem nú þegar eru farnir að horfa til þess að láta bara lífið ganga. Ég las bara áðan að Verkalýðsfélag Grindavíkur er að koma upp aðstöðu hjá VR til að halda félaginu gangandi. Stjórnsýsla Grindavíkur er einnig á fleygiferð við að koma sér upp aðstöðu því að það þarf auðvitað að sinna mörgum þáttum þó að sveitarfélagið sjálft standi autt og yfirgefið.

Mig langar síðan að ræða að það verður stórt og mikið verkefni að koma fólki í varanlegt húsnæði og þá hljóta íbúarnir að spyrja: Hvernig á ég að borga fyrir það, ég stend varla undir láninu mínu, hvað þá að þurfa að taka á mig húsaleigu kannski til fjölda mánaða? Ég held að það sé líka rétt að horfa til þess að við séum ekki að dreifa fólki of mikið því að Grindvíkingar eiga auðvitað bara sína vini og sína fjölskyldu og það er gott ef fólk getur verið saman á einhvern hátt. Við eigum þingmann í Grindavík sem fékk að upplifa þetta á eigin skinni. Fjölskyldan er tvístruð, litlu strákana hans langar að vera í fótbolta með öðrum strákum sem æfðu með þeim. Það eru svona hlutir sem skipta máli og það er ekki hægt að láta fólk bíða í sumarbústöðum svo vikum skiptir. Fyrst og fremst vil ég leggja áherslu á það að við stöndum með Grindvíkingum og tryggjum það að hlutirnir verði í lagi til framtíðar.