154. löggjafarþing — 29. fundur,  13. nóv. 2023.

vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga.

485. mál
[22:49]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Kæru Grindvíkingar — sem sitjið reyndar ekki heima að þessu sinni. Það er algjört lykilatriði í þessum áföllum sem á okkur dynja að Grindvíkingar sem og allir íbúar Reykjanesskaga upplifi að þjóðin standi með þeim. Við jafnaðarmenn teljum að hér þurfi að taka styrkum höndum saman og stuðla að samtryggingunni eins og við sjáum hér lagt til í fyrirliggjandi frumvarpi. Ég tel mig satt best að segja geta fullyrt það hér í kvöld að flestir ef ekki allir Íslendingar eru hver um sig að leita leiða til þess að geta lagt sitt af mörkum til þess að geta tryggt mikilvæga innviði og öryggi á svæðinu. Það er gífurlega erfitt að setja sig í spor þeirra sem fóru með fullar ferðatöskur úr húsum sínum í óðagoti í dag, í spor fólks sem þurfti að velja á milli verðmæta til að bjarga, vitandi lítið um það sem við tekur. Það er frumskylda okkar að standa með Grindvíkingum og hér í kvöld gefst okkur til þess mikilvægt tækifæri. Það er nauðsynlegt að missa ekki sjónar á viðfangsefninu sem er að tryggja öryggi fólks og innviði. Greint er frá því í almennum hluta greinargerðar með fyrirliggjandi frumvarpi, með leyfi forseta, „að yfirstandandi jarðhræringar gefi vísbendingar um að gos gæti komið upp nærri mikilvægum innviðum, svo sem við Orkuver HS Orku í Svartsengi og aðra innviði í nágrenni þess.“ Við þurfum að grípa til allra tiltækra aðgerða til þess að koma slíkum framkvæmdum fljótt og örugglega í farveg og það er hreinlega ábyrgðarhluti að umfangsmiklar og kostnaðarsamar aðgerðir sem þessar séu fjármagnaðar og það liggi fyrir um þær einhver plön á verðbólgutímum.

Virðulegur forseti. Það er ekki að ástæðulausu að frumvarp sem þetta er lagt fram, þetta er fyrsta skrefið í bráðnauðsynlegum aðgerðunum sem þola enga bið. Við jafnaðarmenn höfum ríkan vilja til að leggja okkar af mörkum til þess að skapa þverpólitíska samstöðu, sem er algjört lykilatriði í málum sem þessum. (Gripið fram í.) Vissulega er björninn ekki unninn. Við þurfum að tryggja afkomuöryggi Grindvíkinga og huga að velferð þeirra, húsaskjóli, menntun barna og framtíðarbyggð á svæðinu. Þetta mun allt saman kalla á mjög miklar pólitískar áskoranir á hinu pólitíska litrófi. En ekki í kvöld, í kvöld tryggjum við öryggi fólks og treystum okkar fremstu sérfræðingum og viðbragðsaðilum sem leiða vinnu við þessar framkvæmdir. Það er á stundum sem þessum sem við höfum tækifæri til að kalla fram samstöðu um öryggi stórs hóps sem þarfnast vissu um að fólk standi með þeim, tækifæri til að sýna vilja til að grípa fólk í fangið. Þannig virkar samtryggingin.

Virðulegi forseti. Við í Samfylkingunni treystum því að sú vinna sem lagt er upp með í fyrirliggjandi frumvarpi geti hafist sem allra fyrst. Ég treysti því líka, virðulegi forseti, að það verði ráðist í þessa vinnu á næstu dögum og vikum til að tryggja virðingarverða afkomutryggingu fyrir Grindvíkinga. Sú vinna mun eflaust vekja okkur til umhugsunar um hvar treysta megi sameiginleg kerfi okkar fram á veginn fyrir fleiri sem þurfa nú þegar að reiða sig á þau.

Svo segi ég það bara aftur hér að lokum: Hugur okkar er hjá Grindvíkingum á þessum erfiðu tímum. Samstaða okkar er með íbúum, með Grindvíkingum. Hún er algjör. Það verður þingheimur að sýna í verki á næstu dögum.