154. löggjafarþing — 29. fundur,  13. nóv. 2023.

vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga.

485. mál
[22:58]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Þingflokkur Viðreisnar styður þetta frumvarp heils hugar og mun greiða því atkvæði sitt hér í kvöld. Það hefur verið á margan hátt mjög ánægjulegt að taka þátt í vinnu allsherjar- og menntamálanefndar við þetta mál og margt áhugavert komið fram þar. Ég ætla svo sem ekki að hafa langt mál um það að auðvitað er hugur okkar allra með íbúum Grindavíkur og öðrum þeim sem eru að ganga í gegnum erfiðleika vegna þess sem dynur nú á okkur. Óvissan er auðvitað mikil en við vitum þó að það er hægt að gera ákveðna hluti til þess mögulega að koma í veg fyrir mjög stórfellt tjón. Það er nú ástæðan fyrir því að við styðjum þetta mál, þingflokkur Viðreisnar.

Ég vil hins vegar gera athugasemd við þá fyrirætlan sem skrifuð er inn í þessi lög um hvernig á að fjármagna þessar aðgerðir. Það er verið að tala um 2–3 milljarða sem gætu dottið í þetta á tilteknum tíma og það á að fjármagna þetta með nýrri gjaldtöku. Þó að við séum núna í miðju neyðarástandi þá berum við líka þá skyldu að hugsa alltaf vel um það hvernig Alþingi starfar og hvernig fjármunum er varið og okkur finnst ekki heppilegt að leggja á nýjan skatt til að fjármagna eitthvað vegna neyðarástands þegar neyðarástandið kallar í raun og veru ekki á þá fjármögnun, því að þannig er það svo sannarlega í þessu tilfelli. Það má vel vera til framtíðar litið að það sé heppilegt að gera þetta með þeim hætti sem frumvarpið gerir ráð fyrir, að fjármagna þetta með þeim hætti sem lagt er til. Það má vel vera og alveg hægt að færa mjög góð rök fyrir því. En úr því að það er verið að tala um gjaldtöku eða skatt sem hefur verið rökstuddur og útskýrður þannig að hann gæti jafnvel orðið varanlegur þá hefði ég a.m.k. viljað geta farið aðeins betur yfir ákveðna þætti sem snúa að því. Það er ekki þörf fyrir þessa auknu gjaldtöku vegna þess að við erum með varasjóð og það sem meira er, eins og hér hefur reyndar komið fram, er þessi varasjóður beinlínis til þess að bregðast við svona tilvikum. Á vef Stjórnarráðsins um þennan almenna varasjóð má lesa að honum sé einkum ætlað að mæta frávikum í launa-, gengis- og verðlagsforsendum fjárlaga og meiri háttar ófyrirséðum og óhjákvæmilegum útgjöldum, svo sem vegna náttúruhamfara. Þetta eru auðvitað meiri háttar ófyrirséð og óhjákvæmileg útgjöld vegna náttúruhamfara og því finnst mér eðlilegra að frekar en að leggja álögur á borgarana með svona rosalega litlum fyrirvara og í raun og veru minni vinnu í lagasetningu en við myndum telja æskilegt við fullkomnar aðstæður verði fjármagnið tekið úr þessum varasjóði, fremur en með almennri skattlagningu sem ætti mögulega að gilda langt fram í tímann þó að það sé vissulega í þessu frumvarpi bara gert ráð fyrir tímabundinni ráðstöfun í þá veru. Því ætla ég að taka heils hugar undir þá breytingartillögu sem hér hefur verið rætt um og snýr að þessu.

Mig langar að segja það líka í þessu samhengi að sporin hræða. Í fyrra innheimti ríkið gjald í ofanflóðasjóð og upphæðin var tæpir 4 milljarðar en sjóðurinn fékk hins vegar bara 2,7 milljarða. Ríkissjóður rukkaði sem sagt fólk um gjald sem ríkissjóður lét svo ekki að fullu ganga inn í það verkefni sem gjaldinu var ætlað að standa undir. Mér finnst að við þurfum, jafnvel þótt við séum núna í neyðarástandi, að huga vel að þessu og vera ekki að leggja til framtíðarskatt þegar þess er engin þörf, vegna þess að við höfum varasjóð sem nákvæmlega er ætlað að mæta slíku.

Ég vil ljúka þessu með því að segja að við dáumst auðvitað öll að því æðruleysi og þeim kjarki sem íbúar Grindavíkur sýna. Mér finnst almannavarnakerfið okkar vera að sýna það aftur og aftur að það kann að bregðast við. Við erum auðvitað stundum að velta því fyrir okkur af hverju skilaboðin geta verið pínulítið mismunandi með það sem þarna er í gangi en það er vegna þess að vísindamenn lesa ekki allir með sama hætti í fyrirliggjandi gögn. Það er einfaldlega mikil óvissa í þessu.

Við þingflokkur Viðreisnar styðjum heils hugar þetta mál en ég vil gera athugasemd við það hvernig fjármagna á þessa varnargarða. Við getum farið aðra leið.