154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

framlag fyrirtækja til byggingar varnargarðs.

[13:55]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur fyrir fyrirspurnina. Þetta frumvarp er, eins og gefur að skilja, auðvitað unnið á töluverðum hraða og ég var að fara yfir það áðan í svari við hv. þm. Bergþór Ólason. Niðurstaða okkar var að fara í raun og veru sambærilega leið og við ofanflóðasjóð, þ.e. að leggja þetta lága gjald á allar brunatryggðar húseignir til að standa undir þessari framkvæmd sem fyrst og fremst snýst um orkuverið í Svartsengi. Vissulega er það, og vafalaust, stöndugt fyrirtæki, en eins og ég sagði hér áðan og mér finnst mikilvægt að ítreka, finnst mér við kannski vera komin í umræðu um það hvort við viljum að slíkir innviðir séu í opinberri eigu eða ekki. Það er mikilvæg umræða en það breytir því ekki að þetta er staðan eins og hún er. Þetta einkafyrirtæki sér þessum 30.000 íbúum fyrir rafmagni og hita og tjónið af því ef þetta orkuver fer úr virkni er alveg gríðarlegt.

Síðan vill svo til að þarna er annað fyrirtæki sem landfræðilega liggur upp að þessu orkuveri og ég vil bara segja það skýrt hér að það er auðvitað ekki metið út frá sama þjóðhagslega mikilvægi og orkuverið. Hins vegar liggur það þar sem það liggur — ég er auðvitað að vísa í Bláa lónið — og lega varnargarðanna verður auðvitað að ráðast af þeirri landafræði sem við erum stödd í. Mér finnst mikilvægt að halda því til haga, af því að einhverjir hv. þingmenn hafa rætt um þetta sem sérstaka varnaraðgerð fyrir þennan ágæta ferðamannastað, að auðvitað snýst þessi aðgerð um orkuverið og hún snýst um rafmagn og hita fyrir 30.000 manns. Þetta kom ekki til greina að því leytinu til, eða það kom alveg til greina en það var bara ekki rætt sérstaklega því að frumvarpið er unnið hratt.

Ég vil hins vegar segja að ég legg á það mikla áherslu, og hef gert það í samtölum mínum við Samtök atvinnulífsins núna í tengslum við aðkomu íbúa Grindavíkur, að það er mjög mikilvægt að stöndug fyrirtæki á svæðinu leggi sitt af mörkum til að tryggja þá afkomu núna á næstu mánuðum.