154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

öflun grænnar orku.

[14:06]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F):

Virðulegi forseti. Í gærkvöldi samþykkti Alþingi lög um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga. Mælt var fyrir málinu um hádegisbil og það samþykkt samdægurs, sem sýnir mikilvægi þess að vernda orkumannvirki á svæðinu. Það má segja að án hita og rafmagns séu svæði varla búsetuhæf, enda grænir orkugjafar grundvöllur lífsskilyrða í landinu en einnig knýja þeir efnahagslífið áfram. Sérfræðingar hafa bent á það í þó nokkur ár núna að hér stefni í orkuskort, að kerfið sé uppselt. Nýjar virkjanir hafi tafist vegna alls kyns mótstöðu í kerfinu sem leiðir til þess að staða í orkumálum á næstu árum verður mjög flókin. Þetta er sorgleg staðreynd og í raun ótrúleg staða sem við eigum ekki að þurfa að búa við sem íslensk þjóð með allar okkar endurnýjanlegu orkuauðlindir.

Staðan í orkumálum er alvarleg, sem kemur meginþorra landsmanna líklega verulega á óvart, en núverandi atburðir á Reykjanesskaga minna okkur allharkalega á mikilvægu orku og flutningskerfi þess sem og orkuöryggi. Staðan hefur hins vegar haft sinn aðdraganda. Sérfræðingar hafa varað við mögulegum aflskorti undanfarin ár þar sem bent er á að nýir orkukosti sem bætast inn á kerfið á næstu árum dugi ekki fyrir sívaxandi eftirspurn eftir raforku samkvæmt raforkuspá. Skiljanlega spyrja landsmenn sig: Hvað kemur til? Hvernig endar þjóð sem þekkt er fyrir sjálfbæra hreina orku í ástandi sem þessu? Fyrirtæki hafa gert samninga við kaup á ótryggðri orku sem m.a. er leið okkar til að fullnýta kerfið en að sama skapi hefur ekki oft reynt á skerðingar. Undanfarið hefur hins vegar staðan breyst og fyrirtæki neyðast í auknum mæli til að skipta yfir í óæskilega orkugjafa, eins og olíu, með tilheyrandi kostnaði og umhverfisáhrifum. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Er það rétt að við séum að stefna í orkuskort hér á landi? Og má búast við frekari skerðingum á raforku með tilheyrandi brennslu á olíu á næstu árum?