154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

Almannavarnaástand á Reykjanesskaga, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra.

[14:25]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Dómsmálaráðherra barst beiðni frá ríkislögreglustjóra síðastliðið fimmtudagskvöld um að hefja tafarlaust byggingu varnargarða til varnar orkuverinu í Svartsengi. Það var rætt í ríkisstjórn á föstudaginn síðasta og samþykkt að fara í gerð frumvarps þess sem samþykkt var hér á Alþingi í gærkvöld. Þrátt fyrir það taldi ráðherra ekki forsvaranlegt að bíða þannig að við hófum strax á föstudag vinnu við að flytja tækjabúnað sem og að safna efni og flytja efni inn á svæðið til að við gætum verið undirbúin ef og þegar Alþingi veitti leyfi fyrir þessari framkvæmd, sem er gríðarstór. Þetta eru 400.000 m³ af efni að lágmarki sem þarf í þetta verkefni. Það er áætlað að það séu um 20.000 vörubílar. Eins og kom fram í máli mínu hér áðan hef ég þegar samþykkt erindi ríkislögreglustjóra og sent það til ríkislögreglustjóra sem væntanlega mun hefja þessa framkvæmd í dag. Hversu lengi mun taka að byggja er óvíst en það er áætlað að þetta séu að lágmarki 30 dagar sem þarf til að fullgera varnargarðinn í kringum orkuverið í Svartsengi. Það er sömuleiðis búið að teikna varnargarða til að verja byggðina í Grindavík. Það eru líka leiðigarðar og við sjáum möguleika á því að geta farið í þá miðað við hvar gos kemur upp. En við erum á óvissustigi.