154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

Almannavarnaástand á Reykjanesskaga, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra.

[14:27]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir þetta svar. Við vitum að þetta verða ansi margar ferðir og mörg hlöss. Og aftur kem ég inn á það sem við sögðum áðan og verður örugglega sagt oftar, orð sem við höfum sagt svo oft áður við okkur sjálf, sem eru að óvissan er verst. Það sem er líka stór óvissuþáttur er bara hvort þjóðin standi með Grindvíkingum og Reykjanesskaga öllum. Þegar stjórnmálafólk talar í kross þá eykst þessi óvissa óumflýjanlega. Ég geri mér grein fyrir því að það er ábyrgðarhluti fyrir okkur sem í stjórnmálum störfum að stuðla ekki að múgæsingu. Á næstu dögum hlýtur að ráðast hvort það sé raunhæft að verja bæjarfélagið með þeim hætti sem hæstv. ráðherra lýsti í svari sínu. Ég vona svo innilega að hæstv. dómsmálaráðherra nái árangri með þeim hætti sem lýst er í svarinu og að við getum þá treyst áfram á heiðarleg og opin samskipti hér á vettvangi þingsins.